Hefur gengið frábærlega með nýjan bát

187
Deila:

„Það hefur gengið frábærlega hjá okkur. Held að við séu komnir með um 1.200 tonn síðan við byrjuðum í lok febrúar. Það er gaman þegar maður fær að taka þátt í svona. En akkúrat í þessum töluðu orðum er veiðin að detta niður. Í síðasta túr vorum við ekki nema tæpa tvo sólarhringa að fylla bátinn, en þorskurinn er að ganga út núna svo það er aðeins rólegra í augnablikinu. Við erum við Eldeyna, en nú er líka mikill straumur og leiðinlegt að eiga við þetta.

Þetta er fyrsta árið sem við verðum eingöngu á fiskitrolli allt árið, svo ég veit ekki fyrir víst hvernig þetta verður núna. Við eigum bara að elta fiskinn þar sem er þéttastur, þar eigum við að vera. Mér þykir líklegt að við eltum hann vestur og síðan norður fyrir land. Í júní eða júlí verðum við líklega komnir austur úr og löndum á Hornafirði. Annars höfum við verið að landa í vinnsluna í Þorlákshöfn, þar sem fiskurinn er að mestu flakaður og sendur utan ferskur.“

Þetta segir Brynjar Birgisson, stýrimaður á Þinganesi SF, en hann var að toga við Eldeyna, þegar rætt var við hann af blaðinu Sóknarfæri.

Bara á fiskitrolli þetta árið

„Við erum á fiskitrolli á nýja Þinganesinu og byrjuðum í enda febrúar, en vorum áður á gamla Þinganesinu á fiskitrolli og humri. Á þessum bát verðum við bara á fiskitrolli eins og staðan er núna. Ég vorkenni þeim sem eru á hrumri núna mjög mikið. Ég er búinn að vera á humri síðustu árin og það hefur verið erfitt. Það er aldrei gaman til sjós, þegar það er rólegt. Ég er bjartsýnismaður og held ekki að humarstofninn sé að lognast út af. Ég held að það sé of mikill þorskur í sjónum, sem er að éta humarinn. Það er ekki ofveiði, svo mikið er víst. Maður sér það svo vel þegar maður er á fiskitrolli núna að það er mikið af humri í þorskinum. Þetta er mín tilfinning og ég segi það sama um rækjuna. Þorskurinn étur líka rækjuna og stofninn er í lágmarki.. Það er ekki ofveiði þar heldur. Þess vegna finnst mér rétt að bæta við þorskkvótann svo hann éti ekki humarinn og rækjuna frá okkur.“

Allt til fyrirmyndar

Þinganesið er nýr bátur í sjö báta seríu, skrokkurinn smíðaður í Kína og báturinn kláraður í Noregi en vinnslulína sett um borð í Hafnarfirði. Báturinn er í gerður út af Skinney-Þinganesi. Brynjar er ánægður með bátinn. „Maður hefði  fyrir löngu átt að koma sér á svona bát. Gamla Þinganesið var góður bátur, en aðeins byrjaður að eldast. Þessi nýi fer bara miklu miklu betur með mann. Allur aðbúnaður og allt til fyrirmyndar. Við lentum í skítaveðri þegar við komum með hann frá Noregi, sérstaklega frá Færeyjum til Hornafjarðar, sjö metra ölduhæð og sló upp í 37 metra. Það kom á hornið aftaná honum og við fundum ekki fyrir því. Svo þegar við fórum með hann frá Hornafirði til Hafnarfjarðar stoppuðum við í Eyjum, til að setja smá dót í land. Þar fór upp í tæpa 40 mestra í hviðunum, að vísu að austan beint í rassgatið á honum. Það  var sama sagan maður vissi bara ekki af því.  Þetta eru mjög vel heppnuð skip í alla staði,“ segir Brynjar.

Lestin íslaus

Búnaður á vinnsludekki er frá Micro, Kælingu og Völku og segir Brynjar að íslenska hugvitið hafi komið vel út á millidekkinu. Lestin er íslaus en fiskurinn kældur niður í kælikerfi á vinnsludekkinu og í lestinni er hitastigi haldið í einni til tveimur gráðum undir frostmarki. Báturinn tekur 240 400 lítra kör í lest, en það fara um 330 til 350 kíló af fiski í hvert kar. „Við þurftum einu sinni að sigla nær landi vegna þess að spilin duttu út, til að geta komist í símasamband og hringt til Noregs og náð sambandi við framleiðandann og þá náðu vélstjórarnir að gera við þetta og við haldið áfram veiðum. Þetta er það eina sem hefur skeð hjá okkur. hitt hefur allt virkað. Þetta er það sem koma skal, mikil tæknivæðing á millidekkinu og hefur komið ágætlega út. Samskonar búnaður er í Steinunni, Þóri og Skinney.“

Brynjar byrjaði 15 ára gamall á sjónum á netum á Friðriki Sigurðssyni ÁR í desember 1980 með Sigurði Bjarnasyni, skipstjóra. „Ég hef svo verið á sjó síðan að undanskildum tveimur árum í Stýrimannaskólanum og eitt haust í byggingavinnu. Það líkaði mér ekki. Þar eru allir að horfa á klukkuna og bíða eftir matar- og kaffitímum. Það hentaði mér ekki.

Mikill keppnismaður

Mér þótti líka alltaf gaman á netum, enda alinn upp á netaveiðum á Friðriki Sigurðssyni. Þegar ég byrjaði á sjó var ekki kvóti,. Þá var alltaf keppni, ég er svo mikill keppnismaður að ég þoli ekki að tapa. Er mjög tapsár. Ég hef alltaf verið kappsamur í vinnu. Ég vil alltaf hafa eitthvað að keppast við, en svo þegar kvótinn kom, þá kláraðist þetta allt saman. Nú er ekkert hægt að keppa. Nú eru það reyndar verðmætin sem skipta máli, ekki magnið. Þetta eru kostir og gallar. Þetta er orðin allt öðruvísi sjómennska í dag heldur en var. Núna máttu ekki taka mikið meira fimm til sex tonn í hali í einu, vinnslan verður að hafa undan að gera að og koma fiskinum niður í kælingu.“

Launajafnrétti um borð

Brynjar var í fjögur ár á gamla Þinganesinu. „Þegar Skinney-Þinganes keypti Auðbjörgu og kom með Þinganesið til Þorlákshafnar og Ársæli og Arnari var lagt, sögðu þeir okkur að við myndum fá nýjan bát eftir fjögur ár og það stóð. Þetta er frábær útgerð sem á í alla staði hrós skilið. Það er mjög gott að vinna hjá þeim og allt sem þeir hafa sagt við okkur, hefur staðist. Við vorum þá tvær áhafnir á bátnum í skiptikerfi sem mér líkaði vel. Nú róum við meira en hér er góð og samhent áhöfn og nú í fyrsta sinn á þessu skipi er ung stúlka háseti. Þó hún sé í sínum fyrsta túr fær hún sama hlut og aðrir hásetar, svo það gildir svo sannarlega launajafnrétti um borð. Við ættum kannski að sækja um jafnlaunavottun.“

1.100 tonn í mars og 900 tonn í febrúar

Brynjar var áður skipstjóri á Ársæli, en þá var netaveiðin mikið breytt frá því sem áður var. „Þá var farið út á nóttunni og lagt og dregið svo fljótlega aftur og netin tekin upp. Ekki látinn liggja eins og áður tíðkaðist  Þá sá maður fyrst muninn á netafiski, hversu góður hann gat verið. Hann var ekki síðri en línufiskurinn. Þá sá maður að það hefði kannski mátt slá aðeins af áður. Ekki vera alltaf í keppni. Ég man eina vertíðina á Friðrik Sigurðssyni að þá fengum við 1.100 tonn í mars og 900 tonn í febrúar og þetta var að gert. Þetta eru eiginlega stærstu mánuðir sem ég man eftir á netunum. Þá var stoppað hálfan sólarhring í mars. Þá var ekkert verið að væla yfir því að það væri ekkert stoppað neitt. Menn lögðu sig á kvöldin eftir löndun en á landstíminu var verið að ganga frá netum og tekið í spil. Teknir nokkrir hringir í bridds þó sólarhringurinn væri orðinn nokkuð langur. Nú þekkist það ekki að taka í spil til sjós. Nú eru allir að leika sér í símanum. Ég þoli ekki tölvuleiki því ég er svo tapsár, ég kann ekkert á þessi leiki og tapa því alltaf. Þá spila ég þá ekki,“ segir Brynjar Birgisson.

Sóknarfæri er gefið úr af Ritformi og er blaðinu dreift til sjávarútvegsfyrirtækja um allt land. Blaðið má nálgast á ritform.is

 

Deila: