Lúðustofninn að braggast

183
Deila:

Vöxtur og viðgangur ýmissa nytjastofna annarra en þorsks og ufsa, sem mest veiðast í net, er misjafn samkvæmt netaralli Hafró. Til dæmis hefur vísitala lúðu hækkað eftir lágmark árið 2014 og er sú hæsta sem mælst hefur til þessa. Bann við beinum veiðum á lúðu hefur líklega veruleg áhrif þar.  Vísitala hrognkelsis hækkar mikið á milli ára, einkum í Breiðafirði og er nú í hámarki líkt og árin 2007 og 2016.  Vísitala hrognkelsis hækkar mikið á milli ára, einkum í Breiðafirði og er nú í hámarki líkt og árin 2007 og 2016

Stofnvísitala ýsu í netaralli hefur farið lækkandi síðust þrjú ár en er áfram há í samanburði við fyrri ár. Mest fæst af 60 cm og stærri ýsu (7‐10 ára). Árin 2005‐2013 var töluvert eftir af stóru árgöngunum frá 1998‐2003. Góður ýsuafli í netaralli síðastiðinn ár tengist hins vegar lægra veiðiálagi eftir 2013 borið saman við fyrri ár sem hefur leitt það af sér að ýsan nær hærri aldri.

Langa varð meira áberandi í SMN frá árinu 2007, en fram að því hafði hún aðallega fengist í Kantinum. Stór hluti af þeirri aukningu var út af Suðausturlandi og náði langan þar hámarki árið 2017, en síðustu þrjú ár hefur dregið úr lönguafla þar og vísitala löngu lækkað.

Keila fæst mest frá SA‐svæði til Faxaflóa. Vísitölur hækkuðu árið 2007 og hafa haldist háar síðan með toppi árið 2017.

Fram til ársins 2009 veiddist mest af gullkarfa í Kantinum og fyrir suðaustan land en þá fór magn gullkarfa minnkandi fyrir suðaustan land. Árið 2009 fór að fást meira af karfa fyrir norðan land þegar stöðvum við Grímsey var bætt við. Síðustu ár hefur karfaafli haldist svipaður á öllum svæðum, nema dregið hefur úr honum fyrir norðan og vísitala gullkarfa lækkað sem því nemur.

Litlar breytingar eru á vísitölum steinbíts milli ára og hefur magn hans verið fremur stöðugt. Hann er mest áberandi fyrir vestan og suðaustan land, en lítið veiðist af honum á öðrum svæðum.

Magn skötusels hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin fimm ár en vísitala hefur sigið hægt niður á við með minnkandi magni fyrir suðaustan land. Skötuselur hefur varla sést í netaralli í Breiðafirði og Faxaflóa frá árinu 2012, eftir mikla aukningu sem varð á þeim svæðum eftir aldamótin.

Af flatfiskum veiðist mest af skarkola. Stofnvísitala skarkola hefur farið hækkandi og er í ár sú næst hæsta sem mælst hefur. Sama má segja um þykkvalúru og vísitala sandkola í netaralli 2020 er sú hæsta frá 2002. Vísitala skrápflúru hefur lækkað mikið frá 2003 en vísitala lúðu hefur hækkað eftir lágmark árið 2014 og er sú hæsta sem mælst hefur til þessa.   Vísitala hrognkelsis hækkar mikið á milli ára, einkum í Breiðafirði og er nú í hámarki líkt og árin 2007 og 2016. Vísitala tindaskötu hækkar einnig milli ára og er há.

Deila: