Tíu kíló í holi!

148
Deila:

„Heyrðu, það gengur bara mjög rólega, það er búið að vera ansi lítið hjá okkur síðustu tvo túra, bara einhver tíu kíló í holi. Það er andskotann ekki neitt. Það var ágætt hjá okkur framan af þegar við vorum fyrir austan. Svo datt það alveg niður. Þegar við komum svo hingað vestur eftir var veiðin þokkaleg til að byrja með. Svo fór að fjara undan þessu hægt og rólega og er komið í tíu til fimmtán kíló,“ segir Jón Þórðarson, stýrimaður og afleysingarskipstjóri á Skinney SF.

Þeir voru að veiðum sunnan við Hólakantinn, þegar Auðlindin ræddi við Jón. Hann segir að hann geri sér ekki almennilega grein fyrir því hvað valdi svona lélegri veiði, en nýliðunin sé ansi lítil og veiðin hafi verið að dragast saman síðustu árin. Það sé alltaf verið að minnka kvótann og stytta veiðitímabilið. „Við vorum til dæmis hættir snemma í júlí í fyrra. Ætli það séu ekki einhverjar náttúrulegar ástæður fyrir þessu. Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu áfram, en báturinn á að stoppa vegna viðhalds 20. júlí. Það er ekki komið neitt kall um að fara að hætta þessu. Það verður haldið eitthvað meira áfram og vinna eitthvað á þessum kvóta sem við höfum. Hann er ekki stór en nógu stór fyrir þessi aflabrögð.“

Jón segir að til lengdar sé svona lítil veiði leiðinleg, en það þýði ekkert annað en reyna að klára kvótann og  fara svo í næsta verkefni sem verður fiskitroll. Þeir hafi ekki verið að fá mikið af fiski með humrinum. Fyrst nánast ekkert, en nú sé að koma svolítið af karfa og kola með.

Skinney er með tvo báta á humri, Skinney og Þóri og meðan verið er að veiðum við suðvesturlandið, eru bátarnir með fasta löndun í Grindavík. Þeir landa báðir á sama tíma til sameina aksturinn, þegar aflinn er svona lítill.
„Vonandi blossar upp einhver veiði fljótlega,“ sagði Jón þegar samtalinu lauk.

Myndir Hjörtur Gíslason

Deila: