Grillaður humar

Nú stendur humarvertíðin yfir. Þrátt fyrir að veiðin sé með allra minnsta móti er þó hægt að ná sér í humar, annaðhvort íslenskan eða innfluttan. Við mælum með þeim íslenska, sem er ótvírætt sá besti í heimi. Þetta er einföld og fljótleg uppskrift, en einstaklega bragðgóður réttur. Sannkölluð veisla og hentar vel fyrir ástfangin pör á fallegu síðkvöldi að sumri til.
Innihald:
50g brætt smjör
1 msk. hunang
1 msk. sítrónusafi
1/2 tsk. sítrónubörkur, rifinn
2 msk. saxaður graslaukur
2 msk. saxaður graslaukur og meira til skreytingar
1msk. steinselja, söxuð
3 hvítlauksgeirar, marðir
¼ tsk. salt
16 til 20 humarhalar eftir stærð
1msk. extra-virgin ólífuolía
nýmalaður svartur pipar
örlítið af muldum flögum af rauðum pipar
sítrónubátar
Aðferð:
Hitið grillið eða pönnu á meðalhita. Blandið síðan saman bræddu smjöri, ólífuolíu, sítrónusafa og -berki, hunangi, graslauk, steinselju hvítlauk og salti í hæfilegri skál.
Notið eldhússkæri til að klippa skelina í sundur að ofan og skerið niður í holdið að „rifbeinunum“ Fletjið halana síðan út.
Penslið humarhalana með kryddblöndunni og kryddið með salti og pipar. Grillið halana með holdhliðina niður í augnablik. Snúið hölunum síðan við og penslið aftur. Grillið áfram þar til holdið er ekki lengur glært, aðeins í nokkrar mínútur.
Gott er að nota blauta grillpinna til að stinga í gegnum humarinnn eldilangan svo hann verpist síður við grillunina.
Stráið örlitlu af graslauknum og rauðu piparflögunum yfir. Berið humarinn fram með sítrónubátum og ristuðu brauði. Glas af hvítvíni hentar vel með þessum veislurétti.