Ofnbökuð bleikja

4493
Deila:

Íslensk bleikja er einhver besti fiskur sem hægt er að fá í matinn. Hún er ekki eins feit og eldislaxinn, bragðið eiginlega alveg einstakt og liturinn fallega rauður. Á betri fiskveitingastöðum erlendis er bleikjan með dýrari en samt eftirsóttari réttum og yfir helmings líkur eru á því að bleikjan sé íslensk. Hér er alinn meira en helmingur af allri bleikju sem fáanleg er í heiminum og er Samherji stærsti framleiðandi á bleikju í gjörvöllum heiminum. Auðvelt er að nálgast bleikju í fiskbúðum og fiskborðum stærri verslana, en nokkur fjöldi smærri framleiðenda reiðir sig á markaðinn innan lands.

Innihald:

600 til 800g bleikjuflök, beinlaus með roði, þvegin og þurrkuð

1 tsk. salt

2 límónur, börkur og safi

2,5 dl. ólífuolía

1,5 dl. sherry

½ dl. hlynsíróp

6 greinar rósmarín, bara laufin

4 hvítlauksgeirar

Smávegis af svörtum pipar

2 tsk cayenne pipar

Aðferðin:

Forhitið ofninn í 200°C og leggið álpappír í botninn eldföstu móti og brjótið upp á hliðarnar.
Kryddið bleikjuna með salti og pipar og skiptið upp í hæfileg stykki. Dreypið límónusafa yfir.

Blandið saman límónusafa, ólífuolíu, sherry, rósmarín, sírópi, rifnum límónuberki og hvítlauk og maukið með töfrasprota uns hvítlaukurinn er orðinn vel kurlaður. Dreifið blöndunni yfir flakabitana og kryddið með cayenne piparnum eftir smekk.

Bakið bleikjuna í ofninum við 200°C í 12-15 mínútur og ausið safanum úr eldfasta mótinu yfir þegar tíminn er hálfnaður. Þegar bleikjan er að verða tilbúin er grillinu skotið á hana í 2-3 mínútur til að fá á hana gylltan blæ.

Færið flakabitana upp á disk og jafnið þeim safa, sem kann að vera eftir í ofnfasta mótinu yfir fiskinn. Berið hann fram með salati að eigin vali og hrísgrjónum eða soðnum kartöflum.

Deila: