Verður hið glæsilegasta skip

107
Deila:

Vinna við að sjósetja nýjan Börk hófst í gær,en hann er í smíðum hjá danska fyrirtækinu Karstensens Skibsværft AS. Skrokkur skipsins er smíðaður í skipasmíðastöð Karstensens í Gdynia í Póllandi og þar fer sjósetningin fram. Í október nk. verður síðan skrokkurinn dreginn til Skagen í Danmörku og þar verður skipið fullklárað. Skipið verður sjósett án yfirbyggingar en hún verður sett á eftir sjósetninguna samkvæmt frétt frá Síldarvinnslunni.

Sjósetningin fer þannig fram að hjólabúnaður er settur undir skipsskrokkinn og honum ekið út á stóran flotpramma sem er síðan dreginn frá bryggju og út á nægjanlegt dýpi. Sjó er síðan dælt í tanka prammans og honum sökkt nægilega mikið til að skipið fljóti. Það er síðan dregið að bryggju við skipsamíðastöðina þar sem haldið verður áfram að vinna í því.

Hinn nýi Börkur verður hið glæsilegasta skip í alla staði en það er byggt til nóta – og flotvörpuveiða. Lengd skipsins er 88 metrar, breiddin 16,6 metrar og dýptin 9,6 metrar. Stærð skipsins er 4.100 brúttótonn. Í skipinu verða tvær aðalvélar 3.600 kw hvor og ásrafall skipsins verður 3.500 kw. Þá verður í skipinu 820 kw hjálparvél. Alls verða 13 kælitankar í skipinu og til að kæla aflann verða tvö kerfi, hvort um sig 1.500 kw. Samtals verða tankarnir 3.420 rúmmetrar. Vistarverur verða fyrir 16 manns.

Gert er ráð fyrir að smíði skipsins verði að fullu lokið á komandi vori.

 

Deila: