Arthur gefur kost á sér til formennsku LS

133
Deila:

Tvö framboð til formanns stjórnar Landssambands smábátaeigenda hafa nú komið fram. Aðalfundur LS verður haldinn á rafrænu formi á morgun fimmtudag. Núverandi formaður Þorlákur Halldórsson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Frambjóðendurnir nú eru Arthur Bogason og Gunnar Ingiberg Guðmundsson. Arthur er stofnandi Landssambandsins og sat sem formaður LS frá stofnun þess og þar til fyrir sjö árum.
Arthur hefur birt eftirfarandi pistil á heimasíðu LS til að kynna framboð sitt:

„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér sem formaður Landssambands smábátaeigenda frá og með árinu 2020. Það eru sjö ár síðan ég sagði af mér sem formaður samtakanna. Ástæðan var einföld. Ég var orðin þreyttur eftir áratuga starf. Árin síðan þá hafa gert mér gott.  Áhugi minn á réttindabaráttu smábátaeigenda er hinn sami og áður og hefur aldrei yfirgefið mig.

Ég hef staðið fyrir útgáfu Brimfaxa frá árinu 2014, félagsblaði Landssambands smábátaeigenda. Þar hef ég gert mitt besta til að spegla ólík sjónarmið innan félagsins ásamt því að halda á lofti því grundvallarsjónarmiði að veiðar smábáta eigi að lúta öðrum takmörkunum en stórskipaflotinn.

Ég vil leggja fram reynslu mína og þekkingu á málefnum smábátaeigenda. Ég var formaður LS í u.þ.b. 29 ár ásamt því að vera formaður Alþjóðasamtaka strandveiðimanna og fiskverkafólks (FFAW) í rúm 9 ár og hef verið í stjórn og framkvæmdaráði þeirra samtaka frá stofnun 1997 til dagsins í dag.

Þá stofnaði ég til samtaka Strandveiðimanna í Norður-Atlantshafi (ACFNA) og samdi stofnsamning hins alþjóðlega fundar um grásleppumál (LUROMA) sem haldinn hefur verið síðan 1989.

Ég vil leggja þessa reynslu mína fram í þeirri baráttu fyrir smábátaútgerðina á Íslandi sem svo sannarlega stendur yfir.

Smábátaeigendur hafa þurft að lifa við þá furðulegu staðreynd að vera afgangsstærð. Þetta speglast ágætlega í því hvernig stofnun eins og t.d. Fiskistofa hagar sér gagnvart þeim.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að LS þurfi að veita Hafrannsóknastofnun mun virkara aðhald en verið hefur. Það á ekki einungis við um grásleppuna, heldur alla hennar ráðgjöf í helstu nytjategundum.

Hér nefni ég aðeins fátt af því sem ég tel að þurfi að koma til umræðu og afgreiðslu LS.“

Hér má sjá pistil Gunnars er hann kynnti framboð sitt: https://audlindin.is/gunnar-ingiberg-gefur-kost-ser-til-formanns-ls/

 

Deila: