Þetta var hobbý hjá mér, en ekki lengur

272
Deila:

Gísli Unnsteinsson var aflakóngur á strandveiðum þetta árið með rúmlega 46 tonn og dagarnir voru 43. Það gerir rúmlega þúsund kíló í róðri að meðaltali.

„Ég er á D-svæðinu og réri frá Þorlákshöfn í maí og megnið af júní og í Vestmannaeyjum líka, en síðan á Hornafirði í júlí og ágúst. Veiðarnar gengu mjög vel, en ég var með mikið af ufsa með þorskinum, leyfilegur hámarksafli af þorski var 774 kíló á dag, óslægt. Það var öllu landað á markaði og verðin voru ekkert sérstaklega góð til að byrja með. Sérstaklega á ufsanum, en þegar leið á sumarið lagaðist þetta og komin mjög góð verð þegar  komið var fram í júlí og ágúst, sérstaklega fyrir stóran þorsk,“ segir Gísli.

Á strandveiðum frá upphafi

Gísli er búinn að vera á strandveiðum frá upphafi, en þetta er fyrsta árið sem ég hann hefur verið í þessu af fullum krafti. „Þetta var hobbý hjá mér þar sem ég var í annarri vinnu og gat því aðeins róið annan hvern mánuð á sumrin, en ekki lengur. Núna tók ég þetta af fullum krafti. Ég var fyrst með hæggenga báta en keypti mér hraðbát fyrir þetta tímabil. Það munar miklu að komast hraðar því þá hefur maður lengri tíma á miðunum.

Kerfið er að mörgu leyti gott eins og það er. Það eina sem vantar er að 48 veiðidagar séu tryggðir, hvort sem farið er fram úr viðmiðunarafla eða ekki. Það fékkst ekki núna og við vorum stoppaðir af í ágúst. Að öðru leyti er kerfið gott en þetta þarf að laga svo allir sitji við sama borð á öllum svæðunum.“

Í fyrra náðist ekki að fiska upp í viðmiðunarmarkið sem var 11.000 tonn, en nú var hámarkinu náð í ágúst. Gísli segir að veiðin hafi verið góð og auk þess skipti miklu máli að veðrið hafi verið mun betra nú en í fyrra, að minnsta kosti á svæði D. Því hafi hann náð að róa alla leyfilega daga í maí, júní og júlí, 12 daga í hverjum mánuði. Í ágúst náðust ekki allir dagarnir vegna lokunar, en Gísli segist ekki viss um að hann hefði náð að nýta sér alla dagana í ágúst, því veðrið var þá farið að versna.

Verðin há á mörkuðum í haust

Gísli er búinn að vara á handfærum alveg síðan í mars og var að hætta nú í september, en þá var hann kominn  með bátinn norður á Þórshöfn. Svo bilaði smávegis hjá honum og veðurspáin var vond, svo hann ákvað að láta gott heita á færunum. Hann leigði til sín kvóta til að stunda veiðarnar utan strandveiðanna, fyrir þær og eftir. „Það kom ágætlega út núna í haust. Verðin á mörkuðunum voru mjög há og fiskurinn stór og góður þarna fyrir norðan. Ég tryggði mér þessar heimildir á 190 krónur í sumar. Það var minna að hafa út úr leigukvótanum í vor. Þá voru verðin fremur lág, en þó allt í lagi,“ segir Gísli.

Hann er þessa dagana að dytta að bátnum, sem er kominn upp á land. Hann er að velta því fyrir sér að skipta um vél og drif í bátnum, en vélin var svolítið að stríða honum í sumar. Svo fer hann væntanlega á sjóinn á einhver stærri skip í vetur. „Ég get varla sagt að ég hafi gert neitt annað en að vera á sjó frá því ég byrjaði að vinna og það er bara fínt.“

Öngulvindur létta vinnuna

Gísli er með sérstakan búnað frá Noregi, til að létta sér vinnuna, svokallaðar öngulvindur. „Þetta sér um að draga inn slóðann og fiskinn inn í blóðgunarkassann og þá þarf ég bara að losa fiskinn af króknum, en stærri fiskinn þar ég reynda að gogga og draga inn. Ég er með tvær slíkar vindur, en hvor vinda virkar á tvær rúllur. Þennan búnað flutti ég inn núna því ég slæmur í öxlunum. Þetta léttir vinnuna mikið og gerir allt auðveldara. Ég stend svo bara við kassann og stýri þessu með hnénu og hef því báðar hendurnar lausar. Norðmennirnir eru allir með þetta en einhverra hluta vegna hafa Íslendingar ekki verið að nota þennan búnað nema ég og svo er þetta í einum öðrum bát,“ segir Gísli.
Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Blaðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja um allt land. Blaðið má ennfremur lesa á heimasíðu útgáfunnar á slóðinni, https://ritform.is/wp-content/uploads/2020/10/soknarfaeri_SJOR_4_tbl_okt_2020_100.pdf

 

 

 

Deila: