Hafnir Snæfellsbæjar dýpkaðar

320
Deila:

Umtalsverðar framkvæmdir hafa staðið yfir hjá höfnum Snæfellsbæjar frá því í haust. Dýpkað hefur verið í öllum þremur höfnunum, við Arnarstafa, í Ólafsvík og á Rifi.

„Við byrjuðum að dýpka í Arnarstapahöfn síðastliðið haust og kláruðum það endanlega í febrúar síðastliðinn. Þar var dýpkað í niður í þriggja metra dýpi og athafnasvæðið inni í höfninni, sem er með þessu dýpi stækkað verulega. Bátar í litla kerfinu mega vera allt að 30 brúttótonn og þegar þeir eru komnir inn í höfnina þarf meira rými svo þeir geti athafnað sig þarna í misjöfnum veðrum. Þeir þurfa meira rými með góðu dýpi,“ segir Björn Arnaldsson, hafnarstjóri Snæfellsbæjar.

Norðurgarðurinn lengdur

„Við byrjum einnig aðeins á því í vetur að undirbúa lengingu norðurgarðsins í Ólafsvíkurhöfn um 80 metra. Það verk fór á fullt um mánaðamótin apríl maí. Verklok eru áætluð í lok október. Þetta er til mikilla bóta. Það verður bæði meiri kyrrð í innsiglingunni og innan hafnar.  Það er þegar komið í ljós þó garðurinn sé bara rétt kominn upp úr sjó.

Síðan vorum við að rétt að byrja að dýpka innsiglinguna og innan hafnar í Ólafsvík. Við ætlum að dæla upp 50.000 rúmmetrum af sandi og samhliða því erum við í smá landfyllingu. Við dælum 10.000 rúmmetrum í landfyllingu við norðurgarðsbryggjuna. Þegar dælingu lýkur í Ólafsvík tekur við dæling á Rifi, bæði í innsiglingunni og innan hafnar. Þar verður um 80.000 rúmmetrum af sandi dælt upp. Þessum dýpkunarframkvæmdum á að vera lokið fyrir áramót.

Skipta um stálþil

Svo vorum við núna í júlí að bjóða út efniskaup í stálþil, sem við ætlum að reka niður á næsta ári. 120 metra stálþil við Norðurtanga sem þarf að endurbyggja í Ólafsvík. Hitt er orðið gamalt og ónýtt, götótt og illa farið. Við gerum svo ráð fyrir á bjóða reksturinn á þilinu út strax eftir áramót. Við gerum þá ráð fyrir því að þilið verði rekið niður í byrjun næsta vors. Þannig að það er allt á fullu,“ segir Björn.

Björn Arnaldsson, hafnarstjóri Snæfellsbæjar, segir framlag Hafnabótasjóðs skipta miklu máli við fjármögnun hafnarframkvæmda.

Litlu minni afli en í fyrra

Björn segir að ágætlega gangi að fjármagna þessar miklu framkvæmdir. Þetta séu allt framkvæmdir sem séu inni á samgönguáætlun og því borgi Hafnarbótasjóður sinn hluta af kostnaðinum. Hafnarsjóður myndi aldrei geta staðið undir svona miklum framkvæmdum án framlags sjóðsins. Þetta sé bara eins og allar aðrar hafnir nema þær stærstu, sem fái framlög úr Hafnabótasjóði. Það skipti miklu máli fyrir þessar litlu hafnir úti á landi, að þetta kerfi virki, að sjóðurinn veiti styrki til nauðsynlegra og mikilvægra framkvæmda.

Hann segir ennfremur að rekstur hafnanna í Snæfellsbæ hafi gengið alveg ágætlega í ár, þó örlítið minni afli hafi komið á land í ár en í fyrra. Þar muni um 6% sem sé innan eðlilegra marka milli ára. Fram til ágústloka í fyrra hafi aflinn verið 27.776 tonn en á þessu ári hafi verið landað 26.240 tonnum.

Deila: