Bátur sökk í höfninni á Stöðvarfirði

Köfurum frá varðskipinu Þór tókst í gærkvöldi að stöðva alveg olíulekann úr togskipinu Drangi í Stöðvarfjarðarhöfn og fylla í öll opin göt. Varðskipið er nú á leið frá Stöðvarfirði. Báturinn er búinn út veiða á sæbjúgum og hafði verið í höfninni í nokkra daga en sökk skyndilega í gærmorgun. Fyrirtækið Aurora Seafood er eigandi bátsins. Sagt er frá óhappinu á fréttavefnum austurfrett.is.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að köfurunum hafi þar að auki tekist að ganga þannig frá Drangi að aftan að engin hætta er á að skipið reki frá bryggju.
„Þór var á Stöðvarfirði í nótt en sigldi þaðan í morgun,“ segir Ásgeir. „Það er núna í höndum tryggingarfélags skipsins hvernig framhaldinu verður háttað með björgun skipsins.“
Aðspurður um hvort kafararnir hafi komið auga á nokkuð sem skýrt getur þetta óhapp segir Ásgeir að ekki hafi verið minnst á slíkt í skýrslu frá varðskipinu í morgun.
Eins og fram hefur komið í fréttum hér á austurfrett.is er von á mönnum frá tryggingarfélagi Drangs til Stöðvarfjarðar í dag þar sem staðan verður metin.