Góð veiði á Digranesflaki bjargaði miklu

108
Deila:

Ísfisktogarinn Akurey AK kom til Sauðárkróks í gærkvöldi með um 80 tonna afla. Þetta er afrakstur veiðiferðar skipsins á Austfjarðamið en aflinn framan af veiðiferðinni var mjög slakur.

,,Við vorum fyrstu dagana á SA miðum í leiðinda brælu og litlum afla. Veðrið var of slæmt til að verjandi væri að reyna tveggja trolla veiðar. Við fluttum okkur norðar og á Digranesflaki fundum við loks fisk og fengum mjög góðan afla,” segir Magnús Kristjánsson, skipstjóri í veiðiferðinni í samtali á heimasíðu Brims.

Að sögn Magnúsar hafði veðrið gengið niður þegar Akurey kom á Digranesflak. Þar var því hægt að toga með tveimur trollum samtímis.

,,Þorskurinn á Digranesflaki var í einhverju öðru æti en síld en sunnar var síldin það sem heillaði þorskinn,” segir Magnús en hann kveður aflabrögðin í sumar hafa verið upp og ofan.

,,Við höfum verið fyrir norðan í sumar og nú fyrir austan. Við höfum ekki landað í Reykjavík nema þrisvar frá því um mánaðamótin júní og júlí en annars hefur öllum afla verið landað á Sauðárkróki og honum ekið suður til vinnslu. Við höfum e.t.v. verið heppnir og afli okkar hefur verið þokkalegur í sumar,” segir Magnús Kristjánsson.

Deila: