Of langt ferðalag fyrir loðnuna?

132
Deila:

„Við höfum séð loðnuna vera að fara úr fæðugöngunni bæði vestar og norðar en áður. Það má hugsa sér að það hafi einmitt áhrif á endurkomuna til hrygningar því þá eru orðnar lengri vegalendir fyrir hana að ganga á hrygningarslóðina fyrir sunnan land. Samfara þessu höfum við séð meiri hrygningu fyrir norðan land. Það verður áhugavert að fylgjast með því áfram. Menn spyrja sig jafnvel hvort koma muni að því að góður partur af stofninum nái ekki að ganga suður fyrir landið. Hann hafi hreinlega ekki orku til þess eftir svona löng ferðalög. Það er spurningin, hvort og hvenær.“

Þetta segir fiskifræðingurinn Birkir Bárðarson, sem var leiðangursstjóri í loðnuleiðangri haustsins, í viðtali í nýjasta tölublaði Ægis. Þar segir hann ennfremur:

Það er að berast gríðarlegur lífmassi með loðnugöngunum inn á landgrunnið. Loðnan er mjög mikilvæg fæða fyrir þorsk og aðra stofna. Það væri ekki gott fyrir vistkerfið hér á íslenska landgrunninu, ef allt fer á versta veg. Við spyrjum okkur líka að því, ef hún gengur ekki eins mikið til hrygningar sunnan og vestan við landið og hrygni þá meira fyrir norðan, hver verði þá afdrif þeirra afkvæma sem klekjast út fyrir norðan land. Þau lenda þá í öðrum hafstraumum og berast á aðra staði og þá er það spurningin hvernig þeim mun reiða af. Við höfum verið að sjá dæmi um hægvaxta loðnu í ákveðnum tilfellum, sem gæti hugsanlega tengst þessum breytingum. Hrogn loðnu, sem hrygnir fyrir norðan, eru að klekjast út í kaldari sjó. Þá klekjast þau út seinna og vöxturinn verður líka hægari. Seiðin berast á önnur fæðusvæði og allt getur þetta orðið til þess að hún eigi erfiðara með að vaxa,“ segir Birkir Bárðarson.

Í þessu tölublaði Ægis er ennfremur rætt við bræðurna og skipstjórana Bjarna Ólaf og Hjörvar Hjálmarssyni. Bjarni Ólafur er skipstjóri á Blæng NK og Hjörvar stýrir Berki NK. Fjallað er um fyrirtækið Norðanfisk og hafnarbætur á landinu. Fleira efni um sjávarútveginn og tengt efni er að vanda að finna í blaðinu.

 

Deila: