Á flótta undan veðri

108
Deila:

Ísfisktogararnir Gullver NS, Bergey VE og Vestmannaey VE voru allir í höfn í gær, en veðrið hefur verið slæmt að undanförnu. Gullver kom til Seyðisfjarðar í gær morgun með um 45 tonn og Vestmannaey kom til Neskaupstaðar með um 20 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar heyrði hljóðið í Birgi Þór Sverrissyni skipstjóra á Vestmannaey í gær. „Við vorum úti í rúma tvo sólarhringa og það var sannkallað drulluveður. Vegna veðursins gekk heldur treglega að veiða en við tókum þó ein sex hol. Við byrjuðum úti í Hvalbakshalli en hröktumst síðan norður eftir undan veðrinu. Við færðum okkur líka í gær af kantinum og upp á grunnslóðina en þar var veðrið heldur skárra. Það spáir vitlausu veðri aftur í dag og á morgun þannig að það er líklega best að hafa hægt um sig. Síðan held ég að eigi að koma einhver pása. Það má alltaf eiga von á svona veðurfari á þessum árstíma og menn verða bara að sætta sig við það en við vitum að það þarf að hafa næði til að finna fiskinn,“ segir Birgir Þór.

 

Deila: