Eimskip og Alcoa undirrita samstarfssamning

266
Deila:

Eimskip og Alcoa Fjarðaál hafa skrifað undir samning um áframhaldandi samstarf til næstu fjögurra ára. Eimskip mun áfram sjá um hafnarvinnu á starfsstöð Alcoa Fjarðaáls á Mjóeyrarhöfn þar sem félagið sér um lestun og losun skipa og aðra gámatengda þjónustu, tekur á móti framleiðslunni og gerir hana tilbúna til flutnings.

Samstarfið er liður í umfangsmikilli starfsemi Eimskips á Austurlandi en þar starfa í dag um 90 manns og er félagið einn stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Nýlega festi Eimskip kaup á nýju húsnæði á Egilsstöðum fyrir starfsemi sína þar og tryggir þannig enn betri þjónustu og vörumeðhöndlun á svæðinu ásamt því að aðstaða fyrir starfsmenn og viðskiptavini verður mjög góð. Nýja húsnæðið verður tekið í notkun á fyrri hluta næsta árs.

„Við höfum starfað þétt með Alcoa Fjarðaáli síðustu 13 árin og hefur sú samvinna verið partur af sterkri starfsemi Eimskips á svæðinu. Nýi samningurinn treystir okkar samstarf  enn frekar og við hlökkum til að halda áfram að veita Alcoa Fjarðaáli góða þjónustu á Austurlandi. Reyðarfjörður hefur fengið stóraukið vægi í okkar öfluga siglingakerfi sem er mikilvægt fyrir þau fyrirtæki sem starfa á þessu svæði, sér í lagi fiskútflytjendur á Norður- og Austurlandi. Þá er sérstaklega ánægjulegt að okkar nýjustu og öflugustu skip, Dettifoss og svo Brúarfoss síðar í vetur, munu sinna þessari þjónustu.“ segir Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Innanlandssviðs hjá Eimskip.

„Við höfum átt í farsælu sambandi við Eimskip síðan Fjarðaál tók til starfa og við hlökkum til að halda áfram því góða samstarfi. Eimskip hefur hugsað vel um hafnarsvæðið við álverið og við treystum því að þeir haldi því áfram með öruggum og umhverfisvænum hætti,“ segir Tor Arne Berg forstjóri Alcoa Fjarðaáls.

 

Deila: