Landað á sunnudegi

114
Deila:

Ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu allir í gær. Gullver landaði á Seyðisfirði en Vestmannaey og Bergey í Neskaupstað. Afli Gullvers var 95 tonn en afli Vestmannaeyjar rúm 50 tonn og Bergeyjar 62 tonn. Öll skipin héldu út til veiða á ný strax að löndun lokinni. Gert er ráð fyrir að Vestmannaey og Bergey haldi suður fyrir land og verður lögð áhersla á að skipin veiði annað en þorsk á næstunni.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra á Gullver í morgun en þá var skipið statt í brælu úti í Seyðisfjarðardýpi. „Síðasti túr gekk alveg þokkalega. Við byrjuðum að vísu í Berufjarðarálnum í leit að karfa en þar var sannast sagna ekkert að hafa. Síðan vorum við mest á Fæti og Herðablaði og þar fengum við þorsk og einnig dálítið af ýsu. Nú erum við í leiðindaveðri og þannig verður það í dag, en síðan mun það væntanlega lagast,“ segir Rúnar.

Heimasíðan ræddi einnig við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey í morgun. „Eftir löndun í gær héldum við suður eftir og nú erum við í Sláturhúsinu úti fyrir Mýrunum í leiðindaveðri að reyna að veiða kola. Hér er ástæða til að reyna enda erum við í skjóli af jöklinum. Áformað er að leggja áherslu á annað en þorsk næstu daga og síðan verður væntanlega landað í Eyjum. Bergey er á alveg sama róli og við,“ segir Egill Guðni.
Ljósmynd Egill Guðni Guðnason.

 

Deila: