Færeyingar fá auknar veiðiheimildir í Barentshafi

218
Deila:

Færeyingar og Rússar hafa undirritað tvíhlíða fiskveiðisamning fyrir næsta ár. Samningaviðræðurnar einkenndust af óskum Færeyinga um aukinn botnfiskafla í lögsögu Rússa í Barentshafi, á grunni þess að Norðmenn og Rússar hafa komist að samkomulagi um aukinn heildarkvóta af þorski í Barentshafi og óska Rússa um breytingar á veiðiheimildum í uppsjávarfiski.

Samkvæmt samkomulaginu hækka heimildir Færeyinga til veiða á botnfiski um 2.200 tonn á næsta ári, rækjukvótinn lækkar úr 4.500 tonnum í ár í 4.000 tonn á því næsta. Þorskvótinn fer úr 15.690 tonnum í 17.690 tonn á næsta ári. Ýsukvótinn hækkar um 200 tonn og verður 1.769 tonn. Heimildir til veiða á flatfiski verða óbreyttar í 900 tonnum.

Kvóti Rússa á kolmunna í lögsögu Færeyja verður óbreyttur í 82.000 tonnum. Makrílkvótinn hækkar um 2.000 tonn og fer í 14.500 tonn og síldarkvótinn eykst um 1.445 tonn og verður 10.000 tonn.

Veiðieftirlitið í báðum löndunum hefur á þessu ári verið að koma á rafrænum tilkynningum um afla og er byrjað að prufukeyra kerfið. Stefnt er að undirritun samnings um eftirlitið á næstunni. Slíkt kerfi með rafrænum tilkynningum mun auðvelda eftirlitið og samskipti skipa við eftirlitsstofnanir landanna beggja. Fyrir eru Færeyingar með slíkt samkomulag við Ísland og Noreg og verður samkomulagið við Rússa með sama sniði.

Önnur mál er varða eftirlitsstöðvar fyrir færeysk skip í Barentshafi og tilraunaveiðar voru rædd, en engu var breytt í því fyrirkomulagi.

Deila: