Rekstur Hafró í jafnvægi
Þrátt fyrir að heimsfaraldur Covid, bilanir á rannsóknaskipum og flutningur í nýjar höfuðstöðvar hafi sett mark sitt á fjárhag Hafrannsóknastofnunar var rekstur stofnunarinnar í jafnvægi á því viðburðaríka ári 2020. Þetta má lesa út úr drögum að yfirliti um afkomu ársins 2020 sem nú liggur fyrir. Samkvæmt því námu tekjur stofnunarinnar á árinu 2020 samtals 4,2 milljörðum króna og voru rúmlega 212 milljónum króna lægri en árið 2019. Á sama tíma tókst hins vegar að lækka útgjöld um 229 milljónir króna úr rúmum 4.4 milljörðum króna árið 2019 í tæpa 4,2 milljarða króna árið 2020.
Fjárveiting ársins 2020 nam 3.115 miljónum kr. sem skiptust í 2.907 miljónir kr. í rekstur og 208 miljónir kr. til fjárfestinga. Tekjur voru 1.085 miljónir en þar af voru 279 milljónir króna vegna vörusölu, andvirði seldrar þjónustu skilaði um 78 miljónum kr. og ýmsar aðrar tekjur og framlög um 728 miljónum kr.
Afkoma ársins er 41 miljón kr. afgangur sem skiptist í 49 miljón kr. afgang frá rekstri og 8 miljón kr. umframfjárfestingu.
Áhrif Covid
Meðal þess sem þyngdi rekstur stofnunarinnar á árinu 2020 voru tvö leiguverkefni rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sem féllu niður. Annars vegar var um að ræða 30 daga leigu til norsku hafrannsóknastofnunarinnar en hins vegar leigu á skipinu í 8 daga í gegnum Evrópuverkefnið Eurofleet. Bæði þessi leiguverkefni féllu niður vegna hagræðingar og Covid 19. Tekjutap stofnunarinnar vegna þessa var um 140 milljónir króna.
Um leið og hægt var hóf stofnunin að skima áhafnir og rannsóknarfólk fyrir Covid 19 áður en haldið var í lengri túra og hefur gengið vel að tryggja sóttvarnir um borð. Þrátt fyrir þessar mjög svo krefjandi ytri aðstæður komust skipin í alla rannsóknarleiðangra ársins og féll ekki úr einn einasti túr.
Flutningur í Hafnarfjörð
Eftir að hafa verið til húsa á Skúlagötu 4 síðan 1965 flutti stofnunin í stærsta timburhús landsins við Fornubúðir 5 í Hafnarfirði. Flutningurinn hafði tafist töluvert en þann 05.06.2020 var húsið formlega afhent við hátíðlega athöfn. Þá gengu starfsmenn fylktu liði frá Skúlagötu að Faxagarði í Reykjavíkurhöfn og sigldu með rannsóknaskipum yfir í nýjar aðalstöðvar stofnunarinnar að Fornubúðum 5 við Hafnarfjarðarhöfn.
Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson
Útgerð rannsóknaskipanna árið 2020 breyttist talsvert frá því sem lagt var upp með í byrjun árs. Úthaldsdagarnir urðu mun fleiri en ráðgert hafði verið eða 362 miðað við 326 árið 2019. Árna Friðrikssyni var haldið úti í 218 daga og Bjarna Sæmundssyni í 144 daga. Auk tveggja leiguverkefna sem féllu niður og áður var getið um varð sú breyting á upphaflegri skipaáætlun að Árni Friðriksson var notaður í haustrallið vegna þess að ekki fékkst leiguskip í það verkefni. Skip stofnunarinnar voru því notuð mun meira í eigin rannsóknir en áætlað hafði verið.
Bjarni Sæmundsson hóf árið 2020 í Slippnum í Reykjavík þar sem skipt var um vélarblokk. Skera þurfti gat á síðu skipsins til að ná út ónýtri vélinni. Bjarni var þó kominn í stand og sjófær á réttum tíma til að rannsaka ástand sjávar í leiðangri sem hófst 10. febrúar. Bjarni endaði árið mjög vel en þann 17. desember voru liðin 50 ár frá smíði skipsins. Veisluhöld vegna þess bíða betri tíma.