Umhverfiserfðaefni nýtt við loðnuleit?

208
Deila:

Loðnuleit með umhverfiserfðaefni (eDNA) er samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Matís sem miðar að þróun nýrra erfðafræðilegra aðferða til loðnuleitar. Undanfarin þrjú ár hefur gengið illa að finna loðnu í nægu magni svo unnt sé að gefa út veiðikvóta. Talið er að umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland valdi því að loðnan virðist nú hafa aðra dreifingu og fæðufar en áður.

eCAP miðar að þróun erfðafræðilegra aðferða til loðnuleitar. Þessar aðferðir ganga út á að safna umhverfiserfðaefni úr sjósýnum sem tekin eru á mismunandi dýpi í loðnuleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar. Umhverfiserfðaefni eru DNA sameindir sem losna frá lífverum í hafinu t.d. frá slími, skinni eða úr saur og hægt er að sía úr sjósýninu. Eftir að búið er að einangra erfðaefnið eru notuð sérhæfð loðnu erfðamörk til þess að greina hvort og hversu mikið loðnu erfðaefni er í sýninu. Með þessu má ákvarða hvort loðna er eða hefur verið á leitarsvæði og auðvelda leitina. eCAP verkefnið leitast einnig við að gera þessar aðferðir einfaldar og fljótvirkar þannig að hægt sé að gera þetta um borð í veiðiskipum af áhöfn.

Fyrsta skrefið í eCAP var að finna erfðamörk sem eru algerlega sérhæfð fyrir loðnu. Guðbjörg Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Matís hefur þegar hannað þessi erfðamörk. Næsta stig verkefnisins er að nota erfðamörkin til þess að greina loðnu í sjósýnum sem tekin hafa verið í leiðöngrum Hafrannsóknarstofnunar og bera þær niðurstöður saman við bergmálsmælingar úr sömu leiðöngrum. Gert er ráð fyrir að aðferðin verði kominn í gagnið eftir um tvö ár og eru vísindamenn Hafrannsóknastofnunar og Matís og vonandi loðnusjómenn spenntir fyrir nýrri aðferð til loðnuleitar.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís til þriggja ára. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir verkefnastjóri eCAP, Dr. Christophe Pampoulie, erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun, christophe.s.pampoulie[hjá]hafogvatn.is.

 

Deila: