Rígaþorskur fullur af gotu
Ísfisktogarinn Bergey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gær með fullfermi. Tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar ræddi við Jón Valgeirsson skipstjóra í morgun en þá var skipið að veiðum í Háfadýpinu.
„Aflinn sem við lönduðum í gær var blandaður; ufsi, þorskur og ýsa. Við vorum í Breiðamerkurdýpinu og fengum þar fínasta afla í fótreipistrollið. Síðan var komið við í Háfadýpinu og þar voru tekin tvö síðustu holin. Þar fékkst rígaþorskur fullur af gotu. Það er búin að vera endalaus austan bræla og það er verulega þreytandi en það hlýtur að koma að því að henni ljúki. Við urðum ekki varir við loðnu í Breiðamerkurdýpinu en það eru fréttir af henni austar,“ segir Jón.
Ljósmynd Guðmundur Alfreðsson