Þrjátíu hefja nám í Sjávarakademíunni

174
Deila:

Þrjátíu nemendur hafa nú hafið nám í Sjávarakademíunni. Þetta er í annað skiptið sem boðið er upp á námsleiðina en markmið Sjávarakademíunnar er að efla þekkingu og áhuga á stofnun fyrirtækja og nýsköpun sem tengist bláa hagkerfinu.

Eins og á fyrri önn sóttu yfir 90 nemendur um námið og voru 30 nemendur valdir í staðar- og fjarnám. Nemendur koma úr öllum landsfjórðungum af hinum ýmsu iðn- og stúdents brautum,  ásamt nýnemum á framhaldsskólastigi.

„Við erum mjög spennt yfir því að halda af stað aftur og hópurinn sem var valinn á vorönnina er með breiðan bakgrunn og það verður mjög spennandi að vinna með þeim í vetur. Síðasta önn heppnaðist mjög vel og voru viðskiptaáætlanirnar alveg framúrskarandi og mikið af nýjum hugmyndum hjá nemendum. Nokkrir eru að vinna að hugmyndum sínum nú þegar hérna í Sjávarklasanum. Við útskrifuðum þau úr Sjávarakademíunni og yfir í frumkvöðlasetur hjá okkur. Það var draumurinn og hann er að rætast,“ sagði Berta Danielsdóttir annar aðal leiðbeinanda Sjávarakademíunnar og framkvæmdastjóri Sjávarklasans.

Sjávarakademían er samstarfsverkefni Fisktækniskóla Íslands og Íslenska sjávarklasans og fer kennsla fram í Húsi sjávarklasans við Gömlu höfnina í Reykjavík. Námið er á framhaldsskólastigi og mun vonandi festa sig í sessi sem valmöguleiki fyrir þá sem vilja kynnast bláa hagkerfinu betur.

 

Deila: