Mettúr hjá Örfirisey

134
Deila:

Frystitogarinn Örfirisey RE er nú á heimleið eftir 40 daga veiðiferð í Barentshaf. Aflinn er 1.576 tonn af fiski upp úr sjó. Þetta er metafli hjá Örfirisey en áður hafði togarinn fengið mest um 1.530 tonn í einum og sama túrnum.

Að sögn skipstjórans, Þórs Þórarinssonar, var að þessu sinni farið í norsku lögsöguna í Barentshafi. Veiðar byrjuðu á svokölluðum Fuglabanka en þangað er fjögurra sólarhringa sigling frá Reykjavík.

,,Þar var lítið að gerast þannig að við fórum fljótlega austur á svokallaðan Hjemmelbanka. Þar var góð þorskveiði og við vorum því þar lengst af veiðiferðinni,” segir Þór en samkvæmt norskum lögum má meðafli af ýsu með þorskinum vera allt að 30%. Á það hámark reyndi þó aldrei því Örfirisey er samtals ekki með nema 70 tonn af ýsu.

Að sögn Þórs tregðaðist aflinn á Hjemmelbanka undir lokin og því ákvað skipstjórinn að færa sig aftur á Fuglabanka. Þar var þó lítið að hafa og því var ákveðið að ljúka veiðiferðinni á vertíðarsvæðinu út af Lófót.

,,Við vorum þar í um sex sólarhringa. Aflinn var góður og allur þorskurinn fór í stærsta flokk. Þorskurinn var örugglega fimm til sjö kíló við Lófót en heldur smærri á nyrðri veiðisvæðunum. Þó var þetta allt mjög góður fiskur,” segir Þór Þórarinsson en hann reiknar með að ljúka þessum 40 daga túr í Reykjavík síðdegis á morgun. Vert er að hafa í huga að togarinn var ekki nema um mánuð á veiðum því um tíu sólarhringa tekur að komast til og frá miðunum.

Deila: