Færeyingar fá minna fyrir fiskinn

17
Deila:

Útflutningur á sjávarfangi frá Færeyjum á 12 mánaða tímabili, mars 2020 til og með febrúar 2021, féll um 16% í verðmæti en aðeins 1% í magni, borið saman við næsta 12 mánaða tímabil á undan. Verðmætið nú var 151 milljarður íslenskra króna en magnið 503,500 tonn

Mælt í verðmætum munar mestu um 17% samdrátt í útflutningi á laxi, verðfallið er alls 13,5 milljarðar íslenskra króna. Alls fóru nú utan 62.200 tonn af laxi og er það samdráttur um 4%. Samdráttur í verðmæti þorskafurða er hlutfallslega enn meiri, eða 31% og ríflega 7 milljarða lækkun útflutningstekna. Magnið nú er 19.700 tonn, en var á tímabilinu þar á undan 28.600 tonn og er samdrátturinn í magni sá sami og í verðmætunum, eða tæplega þriðjungur.

Þá hefur útflutningur á afurðum úr makríl fallið úr 83.700 tonnum í 73.000 tonn, sem er samdráttur um 13%. Samdrátturinn í verðmæti er um 24%.

Útflutningur á síld hefur fallið um 12% í magni og 13% í verðmæti. Á hinn bóginn er 42% aukning í útflutningi á kolmunna mælt í magni og 24% í verðmæti.

Deila: