Tælensk fiskisúpa

284
Deila:

Nú fáum við okkur tælenska fiskisúpu. Hún er full af góðmeti og afar bragðgóð og holl. Við leggjum til að notaðar séu þrjár fiskitegundir, en auðvitað geta lesendur okkar valið sér fisk eftir smekk. Aðalatriðið er að kókoshnetumjólk og karrý eiga einstaklega vel saman. Uppskriftin er fyrir fjóra. Hana má svo helminga fyrir rómantískan kvöldverð með kældu hvítvíni fyrir ástfangið fólk á öllum aldri.

Innihald:

800g ýsa, bleikja og lúða í bland roð- og beinlaust, skorið í 2½ sm bita

400ml dós af kókoshnetumjólk

200ml fiskisoð

2-3msk tælenskt rautt karrýmauk

½ rauð paprika og ½ græn, söxuð

Rifinn börkur af einni límónu og safinn úr henni

1tsk sykur

Salt og nýmalaður svartur pipar

Aðferð:

Hellið kókosmjólkinni og fiskisoðinu út á djúpa pönnu og látið suðuna koma upp. Lækkið þá hitann og látið krauma um stund. Hrærið í af og til þar til súpan hefur þykknað og soðið aðeins niður.

Hrærið karrímaukið út í og látið krauma í 2-3 mínútur. Bætið paprikunni, límónuberkinum og safanum út í og látið sjóða áfram í um 2 mínútur.

Bætið fiskinum út í og látið malla í 3-5 mínútur eftir þykkt bitanna. Smakkið til með salti og pipar.

Berið fram með brauði að eigin vali.

Deila: