Bar ekki skylda til að eyða upplýsingum

117
Deila:

Seðlabanka Íslands bar ekki skylda til að eyða upplýsingum, sem bankinn lagði hald á við húsleit hjá Samherja, og hafði bankinn lagalega skyldu til að afhenda héraðssaksóknara upplýsingarnar. Þetta segir í úrskurði Persónuverndar um kvörtun Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Frá þessu er greint á visir.is

Um er að ræða gögn og upplýsingar sem Seðlabanki aflaði með húsleit árið 2012. Voru þar meðal annars rafræn gögn, svo sem tölvupóstar Þorsteins Más, upplýsingar um fjármál hans og fleira. Þorsteinn var boðaður í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra vegna Samherjaskjalanna, svokölluðu, þar sem gögnin voru borin undir hann. Skattrannsóknarstjóri hafði fengið gögnin afhent af héraðssaksóknara, en honum bárust gögnin frá Seðlabankanum.

Fram kemur í úrskurðinum að Þorsteinn hafi talið afhendingu þessara gagna brot á persónuverndarlögum og að Seðlabanka hafi borið skylda til að eyða gögnunum eftir að rannsókn bankans á Þorsteini Má og Samherja hafi lokið.

Þorsteinn krafðist þess jafnframt að Persónuvernd færi í upplýsinga- og gagnaöflun um það hvaða skilyrði eða forsendur hafi verið hjá héraðsdómi, sem heimilaði leitina, fyrir húsleit hjá Samherja og hvort þær forsendur hafi verið brotnar. Þá væri nauðsynlegt að kanna nákvæmlega um hvaða gögn væri að ræða. Óljóst væri af svörum Seðlabanka hvaða gögn væru enn í vörslu bankans.

Máli Seðlabanka, Samherja og Þorsteins Más lauk þegar Hæstiréttur felldi úr gildi 15 milljóna króna sekt á hendur Samherja og Þorsteini fyrir meint brot á gjaldeyrislögum. Bankanum var í kjölfarið gert að greiða Þorsteini Má 2,5 milljónir króna í miskabætur.

Í svari Seðlabankans við umkvörtunum Þorsteins segir að gögnin um hann og Samherja hafi verið í læstum geymslum og að aðeins örfáir starfsmenn bankans hafi haft aðgang að þeim. Þá hafi varðveisla gagnanna byggst á lögum og að bankinn sé sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem beri að afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sín. Bankanum hafi jafnframt borið skylda til að afhenda héraðssaksóknara gögnin.

„Afhending gagnanna hafi að mati Seðlabankans verið allt í senn lögmæt, skýr og gerð í málefnalegum tilgangi enda hafi það verið mat embættis héraðssaksóknara að gögnin gætu haft sönnunargildi við yfirstandandi rannsókn á málefnum [Samherja],“ segir í úrskurðinum.

Deila: