Rangt að þeir séu ósnertanlegir

177
Deila:

Ríkissaksóknari Namibíu segist í nýrri yfirlýsingu til dómstóls þar ytra enn hafa fullan hug á að ákæra suma af starfsmönnum Samherja sem stýrðu dótturfyrirtækjum útgerðarinnar þar í landi. Sá skilningur Samherjamanna að þeir séu ósnertanlegir sé rangur. Frá þessu er greint á ruv.is

Í hinni eiðsvörnu yfirlýsingu sem Namibian Sun fjallar um í dag segir ríkissaksóknarinn Martha Imalwa að dótturfyrirtækin sex sem um ræðir séu skráð á namibískri grundu og því sé hægt að leggja hald á þau og eignir þeirra að namibískum lögum.

Á þeim grunni hafi handtökuskipun verið gefin út í apríllok á hendur þremenningunum sem stýrðu þeim, Ingvari Júlíussyni, Agli Helga Árnasyni og Aðalsteini Helgasyni.

Þá hafi beiðni um gagnkvæma aðstoð við rekstur sakamála jafnframt verið send til Íslands og íslensk stjórnvöld hafi svarað henni með því að senda út minnislykil sem á voru tölvupóstsamskipti sem aflað var af tölvuþjónum Samherja. 

Þá hafnar Imalwa alfarið þeim ummælum Samherjamanna að þeir komi aldrei fyrir namibíska dómstóla vegna þess að íslensk stjórnvöld framselji engan til Namibíu. Enn fremur hafi þeir fullyrt að saksóknarinn hafi ekki sýnt fram á að hún hygðist yfirhöfuð ákæra þá. Imalwa segir í yfirlýsingunni að þessi ályktun þeirra hafi verið villandi, ótímabær og haldi ekki vatni.

Að minnsta kosti einn stjórnendanna þriggja sé persónulega ákærður í málinu. Handtökuskipun á hendur þremenningunum hafi verið gefin út og að namibísk stjórnvöld hefðu ekki formlega óskað eftir framsali þeirra enda hefði það ekki verið hægt fyrr en handtökuskipun væri gefin út.

Auk þess geti íslensk stjórnvöld þá aðeins komið í veg fyrir framsal þremenninganna, ef þeir eru staddir á Íslandi.
 

Deila: