Samdráttur í magni – aukning í verðmæti

95
Deila:

Útflutningur fiskafurða frá Færeyjum dróst saman um 19% á fyrstu sjö mánuðum ársins mælt í magni. Verðmætið jókst engu að síður um 5%. Mestu sveiflurnar eru í makríl og laxi.

Alls fóru utan 236.239 tonn af afurðum að verðmæti 101 milljarður íslenskra króna. Útflutningur á þorski nam 12.288 tonnum, sem er 7% samdráttur. Verðmætið var 10,6 milljarðar sem er samdráttur um 5%. 5.940 tonn af ufsa fóru utan á tímabilinu og er það 7% samdráttur í magni. Verðmætið var þrír milljarðar íslenskra króna. Af ýsu fóru 4.430 tonn að verðmæti tveir milljarðar. Það er aukning í magni um 8% og 1% í verðmæti.
Mikill samdráttur varð á útflutningi á makríl. Á umræddu tímabili fóru aðeins 24.856 tonn utan, en á sama tíma í fyrra var útflutningurinn 40.492 tonn. Það er samdráttur um 39%. Verðmætið nú var 4,7 milljarðar sem er samdráttur um 51%. Útflutningur á síld og kolmunna jókst jókst bæði í magni og verðmæti.

Loks fóru 43.696 tonn af laxi utan á þessu tímabili. Það er vöxtur um 10.564 tonn eða 32%. Verðmætið var 48 milljarðar króna sem er aukning um 18%.

Deila: