Hafró leggur til 904.200 tonna loðnukvóta

161
Deila:

Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við aflareglu strandríkja, að loðnuafli fiskveiðiárið 2021/2022 verði ekki meiri en 904 200 tonn. Ráðgjöfin verður endurmetin í kjölfar mælinga á stærð veiðistofnsins í byrjun árs 2022.  Samkvæmt bergmálsmælingunni haustið 2021 er hrygningarstofn loðnu metinn 1. 833.000 tonn. Þetta er langmesti kvóti síðustu 10 ára, en árin 2019 og 2020 var engin loðna veidd.

Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150000 tonnum. Samkvæmt framreikningum munu markmið aflareglu nást ef afli verður að hámarki 904 200 tonn á vertíðinni 2021/2022.   Vísitala ókynþroska loðnu (1 og 2 ára) er sú þriðja hæsta frá upphafi mælinga.

Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri, kynnir ráðgjöina um loðmuveiðar.

Hér er um að ræða haustráðgjöf sem er endurmetin ráðgjöf fyrir núverandi fiskveiðiár og kemur í stað upphafs‐ ráðgjafar. Ráðgjöf um upphafsafla þessa fiskveiðiárs byggði á bergmálsmælingu ókynþroska loðnu (1 og 2 ára) haustið 2020, samkvæmt aflareglu sem samþykkt var á rýnifundi ICES árið 2015 (ICES, 2015). Aflareglan gerir ráð fyrir að ráðgjöfin verði endurskoðuð að loknum mælingum á stærð veiðistofnsins að hausti og gefin út lokaráðgjöf að loknum leiðöngrum í janúar og febrúar.

Niðurstöður leiðangursins byggja á umfangsmikilli yfirferð en tafir vegna veðurs ollu minni yfirferð á suðvesturhluta svæðisins þar sem ungloðna var mest áberandi. Auk þess náðist aðeins takmörkuð yfirferð norður af Íslandi. Stofnmælingin hafði fremur lágan breytileikastuðul (CV) en loðnan var nokkuð jafnt dreifð auk þess sem almennt var mest af kynþroska loðnu á svæðum með þétta yfirferð.   Meiri óvissa var í mati á kynþroskahlutfalli loðnu í mælingunni í haust samanborið við fyrri ár. Heilt yfir var loðnan komin stutt á veg með þroskun kynkirtla og því í sumum tilvikum erfitt að greina á milli ókynþroska loðnu sem mun hrygna 2023 frá kynþroska loðnu sem mun hrygna 2022. Ástæður þessa eru líklegast tengdar meiri þéttleika loðnu sem veldur minni vaxtarhraða og lægri meðalþyngdum sem og mögulega umhverfisaðstæðum. Afleiðingarnar eru meiri óvissa en jafnan á mati á stærð hrygningarstofnsins og á móti stærð ókynþroska hlutans. Stofnmælingar í vetur gætu varpað skýrara ljósi á þetta.

Samtals veiddust 128 600 tonn af loðnu á fiskveiðiárinu 2020/2021, sem er með minnsta móti frá því loðnuveiðar hófust ef undan eru skilin ár án veiði. Sumar‐ og haustveiði 2020 var engin. Vetrarveiðin 2021 fór fram í janúar‐ mars á íslenska landgrunninu. Meirihluti aflans var veiddur í nót.  
Ljósmynd Þorgeir Baldursson

Deila: