Nýsköpun og tækni í Sóknarfæri

102
Deila:

Nýsköpun og tækni í sjávarútvegi er þemað í fimmta tölublaði þessa árs af Sóknarfæri. Að vanda er fjölbreytt efni í Sóknarfæri og meðal þess sem kastljósinu er beint að eru nokkur nýsköpunarverkefni í greininni. Óhætt er að segja að mikil nýsköpun hafi verið í sjávarútvegi á Íslandi undanfarin ár, tækniþróun hvert sem litið er. Við eigum ennþá mikið inni, ef svo má segja, og bara eitt fyrir sig er sú framtíðarsýn að það sem úr sjónum kemur sé hægt að nýta 100% til verðmætasköpunar. Fyrir ekki svo ýkja mörgum árum þótti slíkt fjarlægur draumur en engum í greininni kemur í hug í dag að útiloka það.

„Líkt og fyrri daginn skiptast á skin og skúrir í sjávarútveginum. Nýtt fiskveiðiár hófst þann 1. september og með úthlutun aflaheimilda var staðfestur samdráttur í þorskkvóta um 13%. Þegar um er að ræða okkar helstu tegund mun ekki fara hjá því að þessa gæti víða, sérstaklega þegar líður á fiskveiðiárið. En það er eftirtektarvert að þrátt fyrir að mörg fyrirtæki sjái fyrir sér að þurfa að grípa til aðgerða sem verði sársaukafullar þá hefur umræðan engu að síður verið að stærstum hluta á þeim nótum að rétt sé að fylgja þeirri ráðgjöf og fræðum sem fiskifræðingar setja fram.

Enn stærri frétt og öllu jákvæðari barst síðan frá Hafrannsóknastofnun í kjölfar loðnumælinga á dögunum þegar boðaður var upphafskvóti upp á rúm 900 þúsund tonn. Loðnuvertíð af þeirri stærðargráðu hefur ekki sést í meira en 10 ár og eðli máls samkvæmt gleðjast margir í greininni og í kringum hana. Vissulega þó mest þau fyrirtæki sem byggja sína starfsemi að stórum hluta á uppsjávarveiðum og -vinnslu en tvö loðnuleysisár í röð voru þungt högg fyrir rekstur þeirra. Hið kunna samspil þorskstofnsins og loðnunnar ætti líka að gefa fyrirheit um að þorskstofninn haldist áfram sterkur á komandi árum, þrátt fyrir að grípa hafi þurft til niðurskurðar í þorskúthlutuninni nú.

Sveiflur er alþekktar í sjávarútvegi í sögulegu samhengi. Í nútímanum þegar allt byggist á stöðugleika og jafnvægi gagnvart afurðamörkuðum og afhendingu eru þær hins vegar ekki óskastaðan. En náttúran spyr ekki um slíkt. Loðnan hefur alltaf verið dyntótt og þetta verður ekki í fyrsta skipti í sögunni sem metár fylgir strax í kjölfar loðnuleysis. En ástæða er til að gleðjast. Mikil umsvif fylgja loðnunni, bæði í útgerð, vinnslum, atvinnutekjur aukast og þar með njóta sveitarfélögin í uppsjávarbyggðunum og þannig má lengi telja,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri í leiðara blaðsins.
Sóknarfæri er gefið út af Ritformi. Því er dreift til fyrirtækja um allt land og það er einnig aðgengilegt á heimasíðu Ritforms https://ritform.is/

Deila: