Gullkarfinn þvælist alls staðar fyrir okkur

97
Deila:

Ísfisktogarinn Helga María AK lét úr höfn í Reykjavík á föstudagskvöld eftir að tæplega 150 tonna afla var landað þar eftir síðustu veiðiferð. Skipstjórinn, Friðleifur Einarsson (Leifur), er ánægður með aflabrögðin þá daga, sem hægt hefur verið að veiðum vegna veðurs, en hann segir veiðiferðirnar að mestu snúast um baráttuna við veðuröflin.

,,Vestfjarðamið hafa nánast verið lokuð í margar undanfarnar vikur vegna stöðugra stórviðra. Að þessu sinni gafst aðeins tóm til að veiða í Þverálnum en við komumst ekki lengra en í Heiðardalinn, sem er út af Halanum, áður en enn eitt óveðrið skall á okkur af fullum þunga,” segir Leifur í samtali á heimasíðu Brims, en í máli hans kemur fram að þeir hafi hrökklast suður fyrir land undan veðurofsanum.

,,Það má segja við höfum verið komnir á eiginleg heimamið. Mest vorum við á Fjöllunum en einnig fórum við grunnt í Skerjadjúpið og á Reykjanesgrunnið. Við vorum aðallega að leita af ufsa en hvert sem við fórum var gullkarfinn að þvælast fyrir. Menn eru að miklu leyti hættir að sækja beint í gullkarfann enda er magnið svo mikið að við fáum nóg sem meðafla á ufsa- og þorskveiðum. Því miður virðast fiskifræðingar vera á annarri skoðun en það er önnur saga,” segir Leifur.

Í heildina segist Leifur vera ánægður með veiðina. Kröfurnar eru reyndar orðnar mjög miklar en Leifur segir að þá verði að horfa til eiginlegs veiðitíma því sjómenn stjórni ekki veðráttunni.

,,Sem betur fer þá hafa komið góð ufsaskot með reglulegu millibili og mest af aflanum nú var ufsi. Því til viðbótar vorum við með gullkarfa og þorsk. Við fórum ekki það djúpt í Skerjadjúpinu að það reyndi á djúpkarfann,” segir Friðleifur Einarsson.

Deila: