Ísfélagið fagnar 120 ára afmæli í dag

363
Deila:

Ísfélag Vestmannaeyja hf. var stofnað 1. Desember 1901 og fagnar 120 ára afmæli í dag. Félagið er elsta starfandi hlutafélag landsins og  fagnar afmælinu um þessar mundir, bæði á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Félagið hefur gefið út myndarlegt afmælis rit þar sem saga þess er rakin í máli og myndum.

Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri ritar inngang í blaðinu þar sem hann segir að miklar breytingar hafi orðið á þessum langa tíma og langflestar til mikilla bóta fyrir land og þjóð, „sem var reyndar hluti af danska konungsveldinu þegar félagið var stofnað. Í dag rekum við starfsstöðvar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi þar sem á báðum stöðum eru frystihús og bræðslur. Í höndum okkar er útgerð fjögurra uppsjávarskipa, tveggja togara og eins línubáts. Starfsmannafjöldinn til lands og sjávar er um 250 manns. Þá á félagið hlut í tveimur sölufyrirtækjum, sem hafa umsjón með sölu allra afurða félagsins.

Í þessu riti er stiklað á stóru í máli og myndum úr sögu félagsins, sem er í senn fróðleg og áhugaverð, enda er saga þess samofin sögu Vestmannaeyja og sjávarútvegs í landinu frá byrjun 20. aldar. Ég vona að lesendur hafi bæði gagn og gaman af því að lesa um starfsemi félagsins og þá sem átt hafa samleið með félaginu um lengri eða skemmri tíma.

Á þessum tímamótum vil ég, fyrir hönd Ísfélagsins, þakka starfsmönnum, núverandi og fyrrverandi, Eyjamönnum og Langnesingum fyrir samfylgdina, traustið og vinarþelið sem þeir hafa sýnt félaginu alla tíð.“

Í forustu þrátt fyrir áföll

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður stjórnar Ísfélagsins ritar einnig pistil í blaðinu. Þar segir hann svo: „Ég kynntist Sigurði Einarssyni í janúar 1988 þegar ég tók við starfi framkvæmdastjóra Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar hf. í Reykjavík. Sigurður var þar stjórnarmaður. Störfuðum við árum saman í félagi fiskimjölsframleiðenda og í sjávarútvegsnefnd Sjálfstæðisflokksins og tókst með okkur og fjölskyldum okkar náinn og góður vinskapur. Hann bauð mér sæti í stjórn Ísfélagsins við sameininguna í ársbyrjun 1992 sem ég þáði stoltur með þökkum.

Við tók tími mikilla átaka og stórra ákvarðana. Illa gekk í fyrstu en síðan tók við betri tíð. Góðu árin voru vel nýtt og félagið byggt upp. Fjárfest var í nýjum tækjum og tólum og skuldir lækkaðar eins og kostur var. Allt kapp var lagt á skynsamlega uppbyggingu félagsins. Þannig hefur það verið alla tíð síðan. En síðan dundu yfir áföllin. Leiðtoginn og eldhuginn Sigurður greindist með ólæknandi krabbamein og lést 4. október árið 2000. Skömmu síðar brann frystihús félagsins í Vestmannaeyjum til grunna á einni nóttu.

Mér þykir rétt að minnast á nokkrar þær ákvarðanir sem teknar voru og skiptu miklu fyrir vöxt og viðgang félagsins sem hefur verið ævintýralegur. Ísfélagið hefur haft forystu í vinnslu á uppsjávarfiski bæði hvað varðar frystingu og bræðslu. Það hefur ávallt haft afgerandi forystu við verkun  loðnuhrogna. Með samningi um smíði á tveimur nýjum uppsjávarskipum við Asmar skipasmíðastöðina í Chile árið 2007 tók félagið tímamótaákvörðun hvað varðar veiðar á uppsjávarfiski. Vegna náttúruhamfara í Chile fengum við aðeins annað skipið afhent, Heimaey, sem hefur reynst happafley.

Kaupin á Hraðfrystistöð Þórshafnar reyndust mikið gæfuspor. Kaupin styrktu Ísfélagið á alla lund. Umtalsverður kvóti fylgdi félaginu. Staðsetning á öndverðu horni landsins styrkir okkur veiðilega. Starfsmenn hafa reynst einstaklega samviskusamt kunnáttufólk. Uppbygging vinnslunnar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn setur félagið í fremstu röð slíkra fyrirtækja. Afköst eru mikil og sjálfvirkni ótrúleg og búnaður allur af bestu gerð.

Kaupin á Sigurði VE, sem smíðaður var í Tyrklandi, markaði einnig þáttaskil. Skipið er burðarmikið, aflmikið og hefur mikla kæligetu. Hér er aðeins stiklað á nokkrum mikilvægum ákvörðunum sem sýna að eigendur félagsins hafa haft í fyrirrúmi að byggja það upp hér á landi og vera burðarás í þeim sveitarfélögum sem það starfar í. Það sinnir ríkulega samfélagslegum skyldum sínum og hlúir vel að frábærum starfsmönnum sínum.

Ég óska eigendum, starfsmönnum og landsmönnum öllum til hamingju með 120 ára afmæli elsta starfandi hlutafélags á Íslandi, Ísfélags Vestmannaeyja.“

Deila: