Færeyjar og Noregur semja um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir

202
Deila:

Færeyingar og Norðmenn hafa undirritað tvíhliða samning um fiskveiðar fyrir árið 2022. Þrátt fyrir að veiðiheimildir í heild af þorski og ýsu í Barentshafi hafi verið lækkaðar verulega, varð samkomulag um að halda sama samningi um veiðiheimildir Færeyja í Barentshafi og á þessu ári. Því er nánast engin breyting frá samningi þessa árs.

Færeyingar fá heimildir til að veiða 4.945 tonn af þorski, 1.100 tonn af ýsu, 500 tonn af ufsa og 400 tonn af öðrum fiskitegundum. Norðmenn fá á móti 3.000 tonn af löngu og blálöngu innan lögsögu Færeyja og er það aukning um 500 tonn. Keilukvótinn lækkar um 500 tonn og verður 1.500 tonn. Kvóti á öðrum fiskitegundum verður óbreyttur í 800 tonnum. Makrílkvótinn sem Norðmenn fá frá Færeyjum verður óbreyttur í 6.600 tonnum

Auk þessara skipta á veiðiheimildum fá Færeyingar aðgang að lögsögu Noregs til að sækja veiðiheimildir, sem þeir hafa samið um við Rússa. Það eru 3.790 tonn af þorski og 200 tonn af ýsu. Það er samdráttur um 360 tonn miðað við þetta ár. Aðgangur Norðmanna til að taka eigin veiðiheimildir í kolmunna lækkar um 2.880 tonn og verður 31.920 tonn.

Deila: