Gróska á sviði skipahönnunar

280
Deila:

„Það er gróska um þessar mundir á sviði skipahönnunar, bæði sjáum við það á Rússlandsmarkaði þar sem við höfum verið að byggja okkar starfsemi upp síðustu ár og ekki síður hér heima á Íslandi. Uppsveifla í loðnuveiðum á Íslandi hefur greinilega mikil áhrif, ekki aðeins auka þær áhuga útgerða á smíði nýrra uppsjávarskipa heldur geta þær ýtt undir fjárfestingar þeirra á öðrum útgerðarsviðum þar sem þörf er til staðar. Okkar markmið hjá Nautic er að vaxa enn frekar í þjónustu við heimamarkað okkar á Íslandi á komandi ári og árum, jafnframt því sem við sjáum fram á enn frekari tækifæri á Rússlandsmarkaði fyrir starfsemi okkar í Pétursborg,“ segir Hrafnkell Tulinius, hluthafi og framkvæmdastjóri skipahönnunarfyrirtækisins Nautic hf. í samtali við desember útgáfu Sóknarfæris.

Víða áhugi fyrir endurnýjun

„Það er að líða að annarri bylgju endurúthlutunar á fjárfestingarkvótum í Rússlandi og slíku fylgir krafa um fjárfestingar í nýjum skipum og landvinnslum. Þess vegna teljum við bjart framundan í starfseminni í Rússlandi. Við fórum líka fyrir skömmu í hringferð á Íslandi, hittum útgerðarmenn og skynjuðum að það er víða þörf og áhugi á endurnýjun í skipaflotanum á Íslandi. Mörg skip eru orðin gömul og slitin en það er líka mikill áhugi hjá útgerðunum að fylgja eftir þróun í vélbúnaði, orkusparnaði, taka þátt í framförum hvað varðar umhverfismál, bæta aðbúnað og vinnuaðstöðu áhafna og þannig má áfram telja. Við þekkjum það af reynslunni að undirbúningur svona verkefna tekur í mörgum tilfellum 2-3 ár áður en hönnun og smíði verða að veruleika þannig að þetta tekur allt sinn tíma. En í mínum huga er enginn vafi að íslenskur sjávarútvegur hefur mikinn metnað til að vera alltaf í fremstu röð og það á ekki síst við um skipastólinn og útgerðina. Við þennan metnað útgerðarinnar á Íslandi ætlum við að styðja með þjónustu okkar hjá Nautic,“ segir Hrafnkell en meðal þeirra nýjunga sem Nautic vinnur nú að er hönnun á nýrri kynslóð uppsjávarskipa þar sem meðal annars er byggt á framstæðu stefni sem hefur sannað sig í skipum Nautic.
Sóknarfæri er gefið út af útgáfufyrirtækinu Ritformi. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt lands, en það má einnig lesa á heimasíðu Ritforms.
https://ritform.is/

Deila: