Minnkandi hrygning rauðátu við Færeyjar

Deila:

 Hrygning rauðátu á landgrunni Færeyja hefur farið minnkandi á undanförnum árum, en hún hefur verið könnuð árlega í lok apríl frá árinu 1997. Rannsóknir sýna að á tímabilinu 2008 til 2020 hefur dregið úr hrygningunni miðað við tímabilið 1997 til 2007. Þetta kemur fram í grein færeyskra vísindamanna í tímaritinu Frontiers in Marine Science.

Rauðátan liggur í dvala djúpt í köldum sjó yfir veturinn. Í febrúar til apríl vaknar hún af dvalanum og færir sig í efri lög sjávar og byrjar að hrygna. Við hrygninguna nýtir hún sér annars vegar fituforða frá árinu áður og þegar líður á vor og fram á sumar nærist hún á gróðri sem myndast í yfirborði sjávar við aukna birtu. Mikill hluti rauðátu á færeyska landgrunninu kemur með yfirborðsstraumum úr hafinu milli Íslands og Noregs í gegnum Bankarennuna og endar að miklu leyti á landgrunninu vestan eyjanna. Einnig kemur nokkuð af átunni úr hafinu sunnan Íslands.

Hrygning rauðátu á landgrunninu við Færeyjar. Blái liturinn sýnir samdrátt en sá rauði aukningu. Blái liturinn er allsráðandi.

Rannsóknir á hrygningu rauðátunnar eru hluti af rannsóknum á afkomu þorsklirfa. Að áliðnum apríl er sá tími sem þorskhrogn byrja að klekjast út og lirfurnar eru mjög háðar rauðátunni, þegar þær komast af kviðpokastiginu og byrja að taka til sín fæðu. Átan gengur réttsælis umhverfis eyjarnar og þorskurinn hrygnir á sömu svæðum og hún fer yfir. Það ræður því miklu fyrir vöxt og viðgang þorsksins, hve mikið framboð er á rauðátu fyrir lirfurnar í frumbernsku þeirra.

 Ekki liggur fyrir hvers vegna dregið hefur úr hrygningu rauðátunnar, en ýmsar skýringar eru á því. Staðfest er að rauðátan vaknar nú fyrr af dvalanum í djúpinu en áður. Því kann það að vera svo að hrygningin eigi sér stað áður en rannsóknarleiðangurinn fer fram og því bendi niðurstaðan til samdráttar á leiðangurstímanum. Hvort sem er, hefur þessi breyting neikvæð áhrif á afkomu þorsklifranna.

Breytingar á veðurfari kunna einnig að hafa áhrif, hlýnun, og breytingar í lífríki hafsins umhverfis Færeyjar. Hækkandi sjávarhiti dregur úr stærð rauðátunnar og getu hennar til hrygningar. Þá getur gæði fæðu fyrir átuna  haft sitt að segja, en hún nærist mest á örsmáum þörungum, en framleiðsla þeirra í Norður-Atlantshafi hefur minnkað. Allt þetta er til frekari rannsókna á komandi árum.

Greinina má lesa her.

Deila: