Netverslun eykst vegna COVID-19

188
Deila:

Sala á netinu á matvælum er sú söluleið sem vaxið hefur mest á undanförnum árum og hún tvöfaldaðist í Bandaríkjunum frá árinu 2016 til ársins 2018. Löndin sem eru fremst á þessu sviði eru Kína og Suður-Kórea, en talið er að þar fari um 14 – 19%  af matarinnkaupum fram á netinu. Af vestrænum löndum eru Bandaríkin og Bretland lengst komin í aðlögun að netverslun. Talið er að 7% af matarinnkaupum í Bretlandi eigi sér stað á netinu og 3 – 4% í Bandaríkjunum. Þetta var fyrir tíma COVID-19. Greint er frá þessum breytingum á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

COVID-19 hefur leitt til mikillar aukningar á sölu á matvælum á netinu á öllum helstu mörkuðum. Til dæmis má nefna að sala á matvælum á netinu í Bandaríkjunum var á bilinu 10 – 15%  í byrjun maí. Sala á matvöru eða heimsendingar frá veitingastöðum eru þeir vöruflokkar sem hafa vaxið hvað mest frá ári til árs í Bandaríkjunum vegna COVID-19 (Earnest Research, sjá mynd).

Fleiri prófa í fyrsta sinn
Samkvæmt könnun hefur einn af hverjum þrem Bandaríkjamönnum prófað, í fyrsta sinn í ár, að versla á netinu. COVID-19 hefur því leitt til þess að fólk hefur prófað að versla á netinu. Innviðir vegna netsölu voru ekki til staðar til að takast á við aukin umsvif og því hefði aukningin getað orðið enn meiri. Það leiddi til þess að neitendur þurftu að bíða í nokkra daga, og jafnvel lengur en í viku, eftir að fá matvæli afhent. Dæmi eru um að verslanakeðjur, líkt og Iceland og Sainsbury, hafi  forgangsraðað sendingum og sett eldri borgara og viðkvæma hópa í forgang. Í því ástandi sem uppi var má ætla að neytendur hafi haft skilning á slíku fyrirkomulagi. En ekki er óvarlegt að ætla að upplifun neytenda, á kostum og göllum þess að kaupa matvæli á netinu, sé æði misjöfn.

Áskoranir
Eftir að faraldur er yfirstaðin, mun atvinnuleysi og minni kaupmáttur vera áskorun fyrir netverslanir og hætt er við því að netsölumarkaðurinn verði verðnæmari. Þá verða neytendur hugsanlega ekki eins viljugir að borga meira fyrir að fá vöru senda heim að dyrum heldur kjósi frekar að fara í búð. Fyrirtæki, sem bjóða heimsendingu á matvælum, þurfa því að laga sig að breyttum forsendum, fjárfesta í tæknilausnum og hagræða. Sum eru þegar byrjuð að bregðast við tækni  og hagræðingaráskorunum vegna COVID-19. Uber er gott dæmi um það. Fyrirtækið á nú í viðræðum við Grubhub, sem er stærsta heimkeyrslufyrirtækið í Bandaríkjunum í veitingageiranum. Ef þessi kaup ganga eftir, verður Uber Eats komið með 55% markaðshlutdeild í heimkeyrslu frá veitingastöðum í Bandaríkjunum. Og þar með tæknilega yfirburði á markaðnum.

Varanleg áhrif?
Stærsta álitamálið er hvort og hversu mikil áhrif faraldurinn hefur á neyslumynstur. Sérfræðingar frá rannsókna og ráðgjafafyrirtækjum, McKinsey & Company, Nielsen, Euromonitor og Bain & Company, eru sammála um að aukning í verslun á netinu muni haldast að töluverðu leyti eftir COVID-19 og það á öllum stærstu mörkuðum. Faraldurinn hafi flýtt þróun í átt að aukinni sölu á netinu, en hún hefur verið að gerjast í nokkur ár. Það sé þó misjafnt frá einu markaðssvæði til annars, hversu traustir innviðir eru til að styðja þá framvindu. Sérfræðingur hjá Bain & Company telur að þegar COVID-19 verði yfirstaðið muni markaðshlutdeild matvara, sem seldar eru  á netinu í Bandaríkjunum, verða í kringum 5-10% (var áður 3 – 4%). Sérfræðingar McKinsey & Company eru sammála því að aukningin sé varanleg og spá því að hlutdeildin verði 5-6%. Markaðir í Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og Kína eru líkir að því leiti, að meirihluta sjávarfangs er neytt á veitingastöðum, eða um 66%. Það verður því mikil áskorun fyrir veitingageirann að ná fyrri styrk. Það sama á náttúrulega við um smásölu, það verður átak að fá neytendur til að kaupa fisk út í búð eða á netinu.

Tækifæri – breytt kauphegðun
Þetta þýðir að neytendur fá meira val um hvað þeir kaupa og eru minna háðir því hvaða vörur einstaka stórmarkaðir kjósa að hafa í hillum sínum (e. Choice editing). Við þetta skapast auknir möguleikar á að þróa verðmætt vörumerki fyrir íslenskar sjávarafurðir. Neytendur eru líklegri til að velja vörur frá framleiðendum sem þeir þekkja og treysta, það á við um allar vörur. Möguleikar Íslands liggja einkum í því að Bandaríkjamenn treysta best íslensku sjávarfangi þegar spurt er um traust á fiski af erlendum uppruna.

Dr. Valdimar Sigurðsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs í markaðsfræði og neytendasálfræði í Háskólanum í Reykjavík sagði nýlega í viðtali að tveir „neytenda“ straumar (e. Global consumer trends) hafi verið ráðandi. Og þeir verði veigameiri núna á tímum COVID-19 og framvegis:

  1. Hinn meðvitaði neytandi – hann þekkir vel það sem hann kaupir, kynnir sér upplýsingar og velur af gaumgæfni.
  2. Hinn er sá sem kýs þægindi, oft tengd tækninýjungum. Hann kýs frekar þjónustu hjá fyrirtækjum sem bjóða þjónustu á netinu og  koma vörunni til neytandans.

Þessir straumar hníga báðir í þá átt að auka sölu á netinu og að neytandinn vilji fá meiri upplýsingar og úrval áður en hann ákveður sig. Við þessar aðstæður ætti upprunaland vöru að skipta meira máli en áður og einnig kynning á vörunni. Enginn veit hvernig markaðsaðstæður verða eftir COVID-19, en það er þó líklegt að kauphegðun muni breytast og þar eru vissulega tækifæri fyrir fyrirtæki sem aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Deila: