Ævintýri líkast

123
Deila:

,,Við eigum tvær togstöðvar eftir. Núna erum við að draga myndbandsupptökusleða suður af Kulusuk við Austur-Grænland. Heilt yfir hefur þessi seinni hluti leiðangursins gengið mjög vel. Fyrir okkur, sem vanir eru fiskveiðum á heimamiðum, hefur þessi tími verið ævintýri líkastur.”

Þetta sagði Friðleifur Einarsson (Leifur), skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK í samtali við heimasíðu Brims. Samband náðist við hann fyrr í dag. Helga María hefur verið í leigu hjá Náttúrufræðistofnun Grænlands í sumar. Í fyrri hluta rannsóknaleiðangursins var útbreiðsla rækju við Vestur-Grænland könnuð en í þeim seinni hefur megin áherslan verið lögð á að kanna útbreiðslu þorsks, karfa og rækju við Austur-Grænland.

,,Ég tók við skipinu í Nuuk af Heimi Guðbjörnssyni sem var skipstjóri í fyrri áfanganum. Frá Nuuk héldum við suður til smábæjarins Qukadok en þar vorum við í tvo daga. Þaðan var svo haldið yfir á austurströndina þar sem við höfum berið lengst af,” segir Leifur. Hann segir veðrið hafa verið rysjótt framan af en síðan hafi skollið á rjómablíða sem standi enn.

,,Við höfum lengst farið á 66°52´N og hafís hefur ekki valdið okkur vanda utan hvað hafís og mikil þoka hröktu okkur af norðanverððum Dohrnbankanum. Við misstum því af togstöðvum þar en í heildina eru togstöðvarnar, sem okkur var ætlað að fara á, um 100 talsins. Því til viðbótar þurfum við að skoða botninn á nokkrum stöðum en það er gert með myndbandsupptökum og sleðanum góða,” segir Friðleifur Einarsson.

Helga María á að vera komin í höfn í Reykjavík 3. ágúst nk. Áður þarf skipið þó að fara á síðustu togstöðvarnar og svo til Tasilaq. Heimsiglingin er svo um 40 tímar.

Deila: