Afli af grásleppu verði ekki meiri en 4.646 tonn

176
Deila:

Hafrannsóknastofnun leggur til að heildaraflamark grásleppu fiskveiðiárið 2019/2020 verði ekki meira en 4.646 tonn. Hafrannsóknastofnun leggur jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2020/2021 verði 1.459 tonn. Stofnunin mun að lokinni stofnmælingu 2021 veita endanlega ráðgjöf um heildaraflamark fiskveiðiársins 2020/2021. Jafnframt ítrekar stofnunin að bæta þurfi skráningu meðafla og eftirlit með brottkasti við grásleppuveiðar.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um endanlegt heildaraflamark fyrir hrognkelsi fiskveiðiárið 2019/2020 byggir á stofnvístölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2020. Niðurstöður mælinga liggja nú fyrir og reyndist vísitalan vera 7,2 sem er hækkun frá fyrra ári (6,2). Stofnvísitala hrognkelsis hefur sveiflast mikið milli ára sem endurspeglar að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráðlagðs hámarksafla.

Grásleppuveiðunum er stýrt með sóknartakmörkunum. Árin 2011 og 2012 voru veiðar leyfðar í 50 daga, 32 daga árin 2013–2016, 46 árið 2017 og 44 daga árin 2018 og 2019. Fjöldi báta sem tekur þátt í veiðunum er breytilegur frá ári til árs, m.a. vegna aðstæðna á mörkuðum grásleppuhrogna, og hefur það áhrif á heildarafla. Á árunum 2005–2016 var fjöldi báta sem tók þátt í veiðunum á bilinu 144–369 á ári. Árið 2019 tóku 240 bátar þátt, sem er aukning um 22 báta frá fyrra ári.

Ráðgjöf

Tækniskýrsla með ráðgjöf

 

 

 

Deila: