Áramót í veiðunum

99
Deila:

Síðustu veiðiferðir kvótaársins eru oft sérstakar og mótast af því hver kvótastaðan í einstökum tegundum er. Menn keppast við að ná þeim kvóta sem þarf svo ekkert detti dautt niður eins og sagt er.

Vestmannaey VE landaði í Eyjum að aflokinni síðustu veiðiferð kvótaársins sl. þriðjudag. Aflinn var 65 tonn, mest djúpkarfi og ufsi. Egill Guðni Guðnason var skipstjóri í veiðiferðinni og segir að lögð hafi verið áhersla á að ná í tilteknar tegundir svo sem minnst dytti niður dautt um kvótaáramótin. „Við vorum á Selvogsbankanum, Víkinni og í Reynisdýpinu og við vorum að rembast við að ná í þær tegundir sem þurfti í lok kvótaársins. Þetta tókst sæmilega hjá okkur en á síðustu stundu komu síðan skilaboð frá ráðuneytinu um að reglunum um hve mikið mætti geyma á milli ára hefði verið breytt þannig að allt okkar stress reyndist óþarft. Það var aukið við það sem mátti geyma bæði í ufsa og djúpkarfa,“ segir Egill Guðni í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Vestmannaey hélt á ný til veiða í gærmorgun og þá var ekkert kvótaárslokastress til staðar.

Bergey VE landaði 50 tonnum af djúpkarfa í Vestmannaeyjum sl. sunnudag í síðustu veiðiferð kvótaársins en síðan kom hún til Neskaupstaðar í gær þar sem landað var um 60 tonnum af blönduðum afla. Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, segir að kvótaáramót séu ávallt ákveðin tímamót. „Kvótaáramót fela í sér nýtt upphaf og við byrjum kvótaárið með því að landa á Norðfirði. Aflann fengum við á Lónsbugtinni, á Gauraslóð og í Litladýpi,“ segir Jón. Bergey er komin til veiða á ný.
Ljósmynd Smári geirsson

Deila: