-->

Aukinn fjölbreytileiki, sterkari stoðir

„Aukinn fjölbreytileiki útflutningsgreina treystir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Ábatinn verður sérstaklega áberandi þegar í bakseglin slær hjá stærstu útflutningsgreinunum líkt og gerðist í fyrra. Ber helst að nefna áhrif loðnubrests á sjávarútveg, gjaldþrot WOW Air og kyrrsetningu Max véla Icelandair á ferðaþjónustu og vandamála í álframleiðslu á álútflutning.“

Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi og segir þar ennfremur: „Ofangreind áföll komu bersýnilega fram í tölum um útflutningstekjur þjóðarbúsins af vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra. Jafnframt mælist í fyrsta sinn samdráttur í útflutningstekjum milli ára frá árinu 2009, sé leiðrétt fyrir gengisáhrifum. Á þann kvarða drógust tekjur af erlendum ferðamönnum saman um tæp 17% og af áli og álafurðum um rúm 15%. Tekjur af sjávarafurðum stóðu í stað þar sem hækkun á verði útfluttra sjávarafurða vóg upp samdrátt í magni.

Sé litið á útflutningstekjur annarra útflutningsgreina en þeirra stærstu þriggja, er þróunin önnur og öllu jákvæðari. Nam slíkur útflutningur (án skipa og flugvéla) 374 milljörðum króna í fyrra samanborið við 332 milljarða árið 2018. Þrátt fyrir að fiskeldi sé enn smátt í sniðum miðað við stóru útflutningsgreinarnar þrjár, er hún ein þeirra atvinnugreina sem felur í sér mikil tækifæri til verðmætasköpunar. Þau áhrif komu bersýnilega fram í fyrra, en útflutningur eldisafurða fór úr 13 milljörðum króna í 25 milljarða á milli áranna 2018 og 2019. Jafnframt var mikill vöxtur í fyrra í útflutningi á tæknibúnaði fyrir sjávarútveg og matvælaþjónustu. Ekki er þó hægt að festa fingur á hversu mikill sá útflutningur var, en hann kemur bæði fram í vöru – og þjónustuútflutningi. Umsvif slíkra atvinnugreina, sem eru jafnframt hátæknigreinar, hafa aukist verulega undanfarin ár.

Af ofangreindu má því segja að þrátt fyrir þau áföll sem dundu yfir stærstu útflutningsgreinar landsins má greina jákvæða þróun í útflutningstölunum. Efnahagsleg hagsæld Íslendinga er háð útflutningi og því fleiri sem stoðir útflutnings eru, því dreifðari verður áhættan. Eins og þróun ársins 2019 sýnir, verður slíkur ábati sérstaklega áberandi þegar í bakseglin slær hjá stærstu útflutningsgreinum landsins.“

Sjá má tölur og umfjöllun um útflutning eldisafurða sem og sjávarafurða á Radarnum.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Eyjarnar með fullfermi

Ísfisktogarar Bergs-Hugins, Vestmannaey VE og Bergey VE, komu báðir með fullfermi til Vestmannaeyja í fyrrakvöld. Aflinn fékkst í kr...

thumbnail
hover

Kvótar í uppsjávarfiski um hálf milljón...

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um veiðar íslenskra skipa á makríl...

thumbnail
hover

Afli af grásleppu verði ekki meiri...

Hafrannsóknastofnun leggur til að heildaraflamark grásleppu fiskveiðiárið 2019/2020 verði ekki meira en 4.646 tonn. Hafrannsóknastof...