Blængur með 800 tonn úr Barentshafi

129
Deila:

Frystitogarinn Blængur NK til Neskaupstaðar úr Barentshafinu að lokinni um fjögurra sólarhringa siglingu. Veiðiferðin hófst 8. júní og var hún því um 40 dagar. Afli skipsins er um 800 tonn upp úr sjó, að mestu þorskur. Verðmæti aflans er 256 milljónir króna.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvort aflabrögðin hefðu verið svipuð og gert hafði verið ráð fyrir.

„Nei, það er ekki hægt að segja það. Aflabrögðin í þessari veiðiferð voru mun lakari en vonast hafði verið til. Fiskgengd í Barentshafinu virðist einfaldlega vera mun minni en verið hefur á þessum árstíma undanfarin ár. Eins er fiskurinn sem veiðist mun smærri en áður. Við veiddum frá landhelgislínu Noregs og Rússlands og allt austur á svonefndan Gæsabanka. Það eru um 240 mílur frá línunni og austur á bankann. Það voru þrjú íslensk skip þarna auk okkar; Arnar, Vigri og Örfirisey. Síðan var þarna fjöldinn allur af Rússum. Veðrið var breytilegt; stundum ágætt eða þokkalegt en svo fengum við þó nokkrar brælur. Við eigum eftir um 500 tonn af Barentshafskvótanum okkar. Hugsanlegt er að farinn verði annar túr í Barentshafið í haust en það kemur bara í ljós hvað gert verður,“ segir Bjarni Ólafur.
Ljósm. Guðlaugur B. Birgisson

Deila: