Brátt fer allt að snúast á ný á Seyðisfirði

96
Deila:

Það sem af er júlímánuði hefur verið sumarstopp hjá frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og stoppið hefur verið nýtt til að sinna viðhaldi á húsinu og á togaranum Gullver NS. Nú er ráðgert að Gullver haldi til veiða á morgun, föstudag og að vinnsla hefjist í frystihúsinu seint í næstu viku.

Róbert Ingi Tómasson, framleiðslustjóri í frystihúsinu, segir að allt sé tilbúið til að hefja vinnslu á ný. „Við höfum notað þetta hlé til að sinna viðhaldi og lagfæringum á húsinu. Hér hefur til dæmis allt verið þrifið, pússað og málað og lítur húsið virkilega vel út. Það verður allt spikk og span þegar við byrjum á ný. Hjá okkur starfar mikið af erlendu starfsfólki sem fór heim í stoppinu. Þetta fólk er nú að koma til landsins og við viljum fara afar varlega vegna kórónuveirunnar. Fólkið þarf að vera í fimm daga einangrun eftir komuna til landsins og þeirri reglu verður að sjálfsögðu fylgt. Þá munum við halda áfram því vinnufyrirkomulagi sem komið var á vegna veirunnar. Það er mjög brýnt að fara að öllu með mikilli gát í stríðinu við þessa veiru og við viljum ekki láta okkar eftir liggja í þeim efnum,“ segir Róbert í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Ljósmynd Ómar Bogason.

 

Deila: