Byrjaði ungur og er enn yngstur!

356
Deila:

Bjarni Már Hafsteinsson byrjaði ungur til sjós og er nú yngsti skipstjóri landsins á uppsjávarveiðiskipi. Hann stýrir Guðrúnu Þorkelsdóttur SU, sem er í eigu Eskju hf. á Eskifirði. Guðrún er eitt af þremur skipum Eskju, en hin eru Aðalsteinn Jónsson og Jón Kjartansson. Bjarni heldur með skipið til veiða á makríl vonandi fljótlega eftir Sjómannadag.

Sjómennskan er Bjarna í blóði hans borin. Á Aðalsteini Jónssyni er Hafsteinn Bjarnason faðir hans og er hann yfirvélstjóri þar. Hafsteinn hefur verið vélstjóri á skipum Eskju frá 1989. Á Jóni Kjartanssyni er Guðmundur Valgeir Hafsteinsson bróðir hans einnig  vélstjóri. Það hittir einkennilega á að þessir 3 feðgar eru allir á sitthvoru skipinu hjá sömu útgerð.

Föðurafi hans, Bjarni Stefánsson, var  stórútgerðarmaður og vélstjóri. Hann rak útgerðarfélagið Friðþjóf á Eskifirði ásamt  félögum sínum. Móður afi  Bjarna er Guðmundur Valgeirsson,  sem var útgerðarmaður  og trillusjómaður frá Þingeyri við Dýrafjörð. Svo það hefur runnið vel í honum sjómannsblóðið langt aftur í ættir.

Bjarni Má Hafsteinsson er búinn að vera með Guðrúnu Þorkelsdóttur síðan 2017 og hefur gengið mjög vel.

Byrjaði sem farþegi á Hólmaborg

„Það var í kringum 14 ára aldurinn sem ég byrjaði á sjó. Þá fór ég á Hólmaborgina sem farþegi fyrstu veiðiferðarnar en ég fór alltaf með strákunum út á dekk.,“ segir Bjarni og heldur áfram:

„Svo einn góðan veðurdag spurði Þorsteinn Kristjánsson sem á Eskju í dag og var skipstjóri á Hólmborg á þeim tíma hvort ég væri ekki til í að koma sem háseti næstu veiðiferð.  Að sjálfsogðu var ég til í það og hef ekki getað slitið mig frá sjómennskunni síðan. Þar var ég um borð næstu sumur meðan ég var að klára grunnskólann. Það stóð ekkert annað til en að fara á sjóinn. Ég hef eiginlega ekki gert neitt annað um ævina. Ég byrjaði því nokkuð ungur í þessu og ég held að ég sé yngsti skipstjórinn í uppsjávarveiðunum í dag,“ segir Bjarni.


Víða farið til að afla reynslu

Hann hefur farið víða á ekki löngum ferli og aflað sér þekkingar og reynslu af togveiðum á botnfiski og veiðum á uppsjávarfiski, bæði í flottroll og nót. „Eftir Hólmaborgina fór ég yfir á ísfisktogarann Hólmatind. Þaðan lá leiðin yfir á togarana Sturlaug H. Böðvarsson og Ottó N. Þorláksson hjá HB Granda. Svo var ég eina loðnuvertíð á gamla Beiti, en þaðan fór ég yfir á Aðalstein Jónsson II, sem var frystiskip. Þá var ég um 19 ára gamall. Ég kláraði Stýrimannaskólann 2009 og fór þá yfir á togarann Bjart hjá Síldarvinnslunni til að ná mér í réttindi. Við færðumst svo yfir á Barða, þegar Bjartur var seldur. Þegar Barði var svo seldur fór ég í afleysingar í Vestmannaeyjum, var á Vestmannaey og Sindra. Ég hef svo verið á Guðrúnu Þorkelsdóttur síðan 2017,“ segir Bjarni.

Bjarni segir að sér þyki skemmtilegra að vera á uppsjávarveiðum en á botnfiskveiðum á togurum. „Því þá er minna verið að tuddast i manni fyrir að taka of stór hol.

Holin í uppsjávarveiðunum eru oft stór, upp í nokkur hundruð tonn í holi.

Uppsjávarveiðin er breytilegri, en á togurunum er svolítið mikið verið að toga á sömu slóðinni. Í uppsjávarveiðinni er meira verið að nota asdikið til að finna fiskinn.“

Leiðinlegt veðurfar vestur af Írlandi

„Í vetur var það fyrsti túrinn sem ég hef farið á loðnu með Guðrúnu og það gekk mjög vel. Þetta var bara einn túr en úr honum skiluðum við hæsta hrognahlutfalli af skipum Eskju.

Annars höfum við verið á kolmunna í vetur og það kemur í ljós hort við förum á sild í haust.

 Við vorum að sækja kolmunann í  Færeyska lögsögu í vetur, en fórum þó ekki eins langt og í fyrra, þegar við vorum vestur af Írlandi.  Það er langt að fara að sækja kolmunnann i febrúar, alveg þrír sólarhringar aðra leiðina. Við fórum ekki þangað  nú í ár af því það var alltaf verið að bíða eftir blessaðri loðnunni.

Það var svo sem ágætt að því að þetta er sannkallað veðra víti þarna suðurfrá, 10 til 12 metra ölduhæð ansi oft, en veiðin getur reyndar verið of góð. Menn hafa lent í því að skipin fari á ógnarhraða afturábak þegar að pokinn kemur upp i yfirborðið með þeim afleiðingum að hann hreinlega fari í tætlur en við höfum sem blessunarlega verið lausir við allt svoleiðis. Þetta eru náttúrulega bara úthafsveiðar í mikilli veiði og þú skellir þér ekkert inn á næsta fjörð i næstu brælu.“

Byrja fyrr á makrílnum

Bjarni segir að sér finnist vera svipað magn á kolmunnaslóðinni eins og undanfarin ár, en útlit sé fyrir að þeir fái að veiða svolítið meira af makríl en í fyrra. Nú verði byrjað að veiða hann eftir Sjómannadag, en í fyrra hafi verið byrjað um mánaðamótin júní-júlí. Það verði því nóg af verkefnum framundan, en fyrst byrji veiðarnar venjulega vestan við Eyjar og svo færist veiðin út í Síldarsmuguna. Þar hafi verið fín veiði í fyrra í upphafi vertíðarinnar.
Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem gefið er út af Ritformi. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en það má líka lesa á heimasíðu Ritforms https://ritform.is/wp-content/uploads/2021/06/soknarfaeri_3_tbl_2021_100_taka2.pdf

Deila: