-->

Ekki víst að hér verði alltaf makríll

„Maður sér að makrílveiðin hefur breyst mikið. Það kemur mun minna inn í lögsöguna og og mun dreifðara og því ekki í eins veiðanlegu formi og áður. Það er erfiðara að eiga við hann núna. Þetta kemur og fer eins og við þekkjum sem erum búnir að vera lengi í þessu. Þetta er til dæmis lakasta árið í veiði innan lögsögunnar. Það er ekkert víst hér verði alltaf makríll,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA í samtali við Ægi. Guðmundur hefur verið á makrílveiðum allt frá því slíkar veiðar hófust um 2008.

Það er hitastigið í sjónum sem ræður miklu um það hve langt makríllinn gengur á sumrin. Undanfarin ár hafa verið hagstæð hvað það varðar en nú hefur sjórinn verið kaldari en áður. Reyndar var það bara efst í bláyfirborðinu sem hitinn var góður. Nú virðist lag hlýsjávarins vera þynnra en áður.

Mikill ránfiskur

„Við höfum heyrt um makríl fyrir Norðurlandi, en við höfum ekki farið þangað að leita, enda er þar lokað hólf fyrir trollveiðum. Kannski kemur þá sá makríll suður með austfjörðunum þegar hann byrjar að ganga til baka á vetrarstöðvarnar. Þetta er allt breytilegt og til dæmis er ekkert langt síðan við þurftum að sækja norsk-íslensku síldina okkar langt norður í höf. Nú er hún í miklum mæli innan lögsögunnar. Makríllinn er mikill ránfiskur og komi hann ekki á miðin, getur það komið sér vel fyrir aðra fiskistofna. Það er eins og þessi makrílstofn sem kom hingað í upphafi, hafi verið að koma aftur og aftur, því við erum alltaf að fá stærri og stærri fisk og það bendir til að nýliðun vanti í þann hluta stofnsins sem við höfum verið að veiða úr.

Íslenska sumargotssíld er að braggast núna og mikið sást af ungviði kolmunna í rannsóknaleiðöngrum í sumar. Þegar eitt minnkar kemur annað í staðinn. Nú fáum við loðnuvertíð, hún kemur núna. Þeir  hafa sé svo mikið af ókynþroska loðnu að það verður vertíð í vetur. Fyrstu tillögur Hafró gefa til kynna 400.000 tonna kvóta en svo kemur þetta betur í ljós eftir leiðangur nú í september.

Nú eru Norðmennirnir komnir í bobba. Nú fá þeir ekkert að fara inn í lögsögu Breta til að veiða eins þeir hafa getað fyrir Brexit. Það eru engir samningar í gildi þar. Þeir veiddu aðeins 20% af sínum kvóta innan eiginlögsögu í fyrra. Það verður væntanlega eitthvað öðruvísi núna. Þessar þjóðir verða bara að ná samkomulagi, svo hægt sé að stýra veiðunum og taka makrílinn á þeim tíma sem hann er verðmætastur.“

Samkomulag verður að nást um veiðarnar

Ekkert samkomulag hefur verið um makrílveiðarnar og hefur það leitt til þess að veiðin fer verulega umfram ráðleggingar fiskifræðinga. Lönd eins Noregur og Færeyja hafa verið að skammta sér heimildir sem eru langt umfram eðlilega hlutdeild og haldið Íslandi fyrir samningaviðræður um stjórnun veiðanna.

„Ég er þeirrar skoðunar það verði að nást samkomulag milli veiðiþjóðanna um hlutdeild hvers og ein í aflanum. Þetta mun aldrei ganga til langframa án samkomulags. Ég held að það geti gengið illa eftir nokkur ár vegna óstjórnar og ofveiði. Við verðum að geta samið um þessa stofna. Það er ekki hægt að taka sér einhliða mikinn kvóta eins og Færeyingar og Norðmenn hafa gert. Við erum barnanna bestir því við stillum okkar hlut i hóf í samræmi við það sem við höfum verið að gera. Hinir fara langt fram úr öllu. Náist samkomulag um veiðar þá ættum við líka að geta veitt makrílinn  víðar og á betri tíma þegar hann er sem best hráefni. Þannig gætum við fengið verðmætari afurðir, þó hlutdeildin yrði hugsanlega minni,“ segir Guðmundur.

Úthaldið á stóru uppsjávarskipunum hefur verið erfitt í loðnuleysinu. En nú eru horfurnar betri. Nú lítur út fyrir að skipin hafi góð verkefni allt árið. Eftir makrílveiðar að sumri fara skipin á norsk-íslensku síldina á haustin, síðan á íslensku síldina og eftir áramótin tekur loðnan við og loks kolmunni fram á vorið. Guðmundir segir að þó loðnuvertíðin í betur hafi verið lítil, hafi hún gefið mjög vel af sér og afurðaverð í hæstu hæðum. Með meiri kvóta sé líklegt að verðin lækki eitthvað.

Rúm 40 ár á sjónum

„Ég var 14 eða 15 ára þegar ég fór fyrst á sjó og hef því verið á sjó í meira en 40 ár. Ég byrjaði á færum á bát frá Bolungarvík um eitt sumar. Þá var það þannig að það var talinn fiskurinn sem hver og einn dró og borgað eftir því. Ég fór svo eitt sumar á Guðmundi Péturs á útilegu á línu með beitningarvél um borð. Þetta var annað skipið á Íslandi til að taka beitningarvél um borð. Bergþór KE var held ég fyrstur til þess. Við fórum þá alveg yfir til Grænlands, en við gátum ekkert verið með eins marga króka og bátarnir eru með nú.
Svo byrjaði ég á togurunum 1976, fyrst á Heiðrúnu í Bolungarvík. Þar var ég alveg þar til ég fór í Stýrimannskólann 1979 í Vestmannaeyjum. Svo fer ég á Sléttanesið á Þingeyri 1983, fyrst sem annar stýrimaður. Ég fór svo fyrsta túrinn minn sem skipstjóri á því skipi. Ég kem síðan til Samherja 1986. Þá fer ég á Margréti sem stýrimaður og skipstjóri á rækju. Það var skemmtilegur tími því Samherji hefur alltaf verið í fararbroddi og þarna komu ný troll og fleira til sögunnar. Svo fer ég á Hjalteyrina 1991 eða 1992 og var með hana sem skipstjóri  í tvö til þrjú ár og fer svo á Baldvin Þorsteinsson, sem stýrimaður og skipstjóri. 2001 fer ég svo á Vilhelm. Tók svo Baldvin í tvö ár, aftur á Vilhelm, síðan á Margréti og loks yfir á Vilhelm, sem kom nýr í ár.“

Ákveðinn sjarmi yfir þessu öllu

Er einhver veiðiskapur skemmtilegri en annar? „Það er ákveðinn sjarmi yfir þessu öllu. Mér fannst aldrei leiðinlegt á togurunum þegar við vorum í úthafinu og þessu öllu saman. Uppsjávarveiðin er vissulega skemmtileg, bæði nótin og flottrollið. Það er búið að gera margt og ég held að Samherji hafi alla tíð verið í fararbroddi í nýjungum. Ég stend með mínum mönnum og er sannfærður um að sjávarútvegurinn á Íslandi væri ekki kominn svona langt ef Þorsteins Más hefði ekki notið við. Hann hefur breytt miklu til góðs fyrir sjávarútveginn

Þetta eru búin að vera nokkuð mismunandi skip og veiðiskapur. Allt hafa þetta verið góð skip. Togarinn Baldvin Þorsteinsson var mjög gott skip. Eldri Vilhelm var einnig meiriháttar skip og sá nýi er hreinlega algjört draumaskip. Hann er „Rollsinn“ í þessu. Það er allavega ekki hægt að kenna græjunum um ef maður fiskar ekki. Samherji gerir allt af stórhug og þeir vilja alltaf vera með það besta hvort sem er á sjó eða í landi,“ segir Guðmundur.

Hafa ekki hundsvit á sjávarútvegi

Guðmundur er ekki sáttur við hvernig umræðan um sjávarútveginn er á Íslandi og hugmyndir um að gjörbylta kerfinu með innköllun veiðileyfa og uppboðum. „Mín skoðun er sú að þetta fólk sem hæst lætur hafi ekki hundsvit á sjávarútvegi. Markmið Sósíalistaflokksins er til dæmis bara að ganga af Samherja dauðum, tæta hann í sundur. Hverju á það að skila? Ég skil það ekki. Auðvitað má laga og bæta kerfið, en hvernig halda menn að uppboðsleiðin fari. Það hefur reyndar enginn lýst því hvernig hún eigi að virka. Ætli það hafi verið margir sem hefðu boðið í veiðiheimildir í makríl í sumar. Það getur verið að einhverjum takist að breyta kvótakerfinu með innköllun heimilda, en það verður ekki hægt að hirða skipin af útgerðinni.

Snyrtilínur í húsi Samherja

Svo talar Samfylkingin um að rukka útgerðina um meira sérstaklega þessa 15 til 20 stærstu. Hvernig í ósköpunum ætla þeir að gera þetta. Þeir vita það ekki sjálfir. Og svo er bara talað um þorsk. Kannski heldur fólk að þorskur sé eina tegundin sem við veiðum. Ég hafði nú einu sinni trú á Þorgerði Katrínu sem stjórnmálamanni, en það er ekki lengur. Það er ótrúlegt eins og hún talar í dag, að hún hafi getað verið sjávarútvegsráðherra. Svo er Daði Már Kristófersson, sem skrifaði skýrslu fyrir nokkrum árum um nauðsyn og ágæti kvótakerfisins kominn í Viðreisn og allt sem hann segir um sjávarútveginn nú, stangast við skýrsluna hans. Svo reynir þetta fólk fá almenning til að trúa að því að með hækkun veiðigjalda sé hægt að gera alla hluti og öllum muni líða betur.

Fólk virðist ekki vilja sjá hvað sjávarútvegurinn er að gera fyrir það. Samherji hefur fjárfest fyrir um 15 milljarða í Vilhelm Þorsteinssyni og frystihúsinu á Dalvík. Stór hlutur búnaðar og tækni í bæði skipi og vinnslu eru unninn hér á landi og skapar mörg störf fyrir utan þau sem útgerðin og vinnsla gera. Sjávarútvegur skilar miklu meiru til samfélagsins í heild en flestir gera sér grein fyrir. Það verður aldrei vitræn umræða um sjávarútveginn fyrr en fólk fæst til að skilja hve miklu vel rekinn sjávarútvegur skilar þjóðarbúinu,“ segir Guðmundur.
Viðtal þetta birtist fyrst í septemberútgáfu Ægis, sem Ritform gefur út.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Vaxandi tekjur af fiskeldi

Útflutningstekjur af fiskeldi jukust úr 9,6 milljörðum króna árið 2016 í 29,3 milljarða króna á síðasta ári. Um er að ræða ...

thumbnail
hover

Fundað um uppsjávarveiðar í London

Þessa dagana standa yfir í London viðræður strandríkja um veiðistjórnun á makríl, kolmunna og norsk-íslenskri síld. Samtímis fa...

thumbnail
hover

Uppsjávarveiðarnar blómstra

Þegar þetta er ritað er verið að ljúka við að landa 1.600 tonnum af norsk-íslenskri síld úr Beiti NK í Neskaupstað. Að sjálfs...