Á flæmingi undan veðri og þorski

131
Deila:

Frystitogarinn Vigri RE er nú í höfn í Reykjavík með tæplega 600 tonna afla upp úr sjó eftir sannkallaðan brælutúr á Vestfjarðamið, Austfjarðamið og SV-mið. Skipstjórinn, Eyþór A. Scott, segir í samtali á heimasíðu Brims, að veiðiferðin hafi að mestu farið í að flæmast undan veðri og í sumum tilfellum undan þorski enda hafi sú fisktegund ekki verið á óskalista útgerðarinnar fyrir túrinn.

,,Við byrjuðum á að fara á Halamið. Þar fengum við góðan ufsaafla. Við náðum að skjótast austur í Þverál og veiða þar ýsu áður en við þurftum að fara inn á Ísafjarðardjúp til að komast í var fyrir stormi sem þá var yfirvofandi. Við vorum búnir að vera í vari í rúman hálfan sólarhring en þá gekk veðrið niður. Það má segja að þarna hafi opnast hálfs sólarhrings gluggi. Kostirnir, sem við stóðum frammi fyrir, voru eiginlega tveir. Koma sér sem fyrst í burtu og reyna fyrir sér í skárra veðri fyrir austan eða vera um kyrrt í Ísafjarðardjúpi næstu vikuna. Við völdum að sigla austur.”

Að sögn Eyþórs var ágæt veiði fyrir austan. Byrjuð var í Langaneskantinum en þaðan var farið á Digranesflak. Á báðum stöðum var þorskur uppistaða aflans.

,,Markmiðið var að veiða ekki of mikinn þorsk en eitthvað urðum við að gera. Við reyndum t.a.m. við ýsu á Tangaflaki en heilt yfir var uppistaða aflans fyrir austan þorskur,” segir Eyþór en skipverjar á Vigra náðu að fara aftur á Vestfjarðamið á bakaleiðinni.

,,Við byrjuðum á Sléttugrunni og svo keyrðum við vestur að austurhorni Víkurálsins. Þar var ágætur afli. Mest gullkarfi og svo þorskur og ufsi í bland.”

Síðustu dögum veiðiferðarinnar var svo varið á SV-miðum.

,,Við fengum fína gullkarfaveiði á Eldeyjarbankanum og enduðum svo veiðarnar grunnt í Skerjadjúpinu. Þar var aðallega verið að kanna stöðuna á djúpkarfanum og þótt við höfum fengið dálítinn afla þá var tíminn, sem við vorum þarna, alltof skammur. Við vorum ekki að veiðum nema tæpa átta tíma,” segir Eyþór A. Scott en hann er sammála Ævari á Örfirisey RE, sem rætt var við hér á heimasíðunni í vikunni, um að vetrarvertíð sé að bresta á. Fiskurinn sé á leiðinni í kantana og upp á grunnin.

Deila: