Frá hrogni til fisks og á disk

126
Deila:

Lax-Inn er ný fræðslumiðstöð fiskeldis á Grandagarði í Reykjavík. Aðstaða miðstöðvarinnar er að Mýrargötu 26, 101 Reykjavík og opnar hún formlega fyrir almenningi í dag, föstudaginn 10. september frá kl. 14:00. Þar er nú hægt að kynna sér starfsemi fiskeldis með beintengingu myndavéla bæði í land- og sjóeldi á landsbyggðinni ásamt ýmsu öðru fræðsluefni um þessa atvinnugrein.

Lýsa ferli framleiðslunnar, frá hrogni til fisks á disk
Lögð er áhersla á fræðslu um hvernig fiskeldi við íslenskar aðstæður fer fram, frá hrogni til fisks og alla leið á disk neytenda. Heildarferli framleiðslunnar er lýst, til dæmis hvernig jarðvarmi og græn raforka eru nýttar og hagstæðar umhverfisaðstæður í landeldi einnig með gegnumstreymi og hringrásarkerfi. Frætt er um áframeldi í sjó, en það er gert við köldustu aðstæður sem þekkjast í laxfiskaeldi í heiminum. Öllu framleiðsluferlinu eru gerð ítarleg skil, hvað einkennir gæði afurða og umhverfisáhrif framleiðslunnar rakin. Áhersla er lögð á kynningu á eldistækni íslenskra fyrirtækja sem eru mjög framarlega á heimsvísu í tæknilausnum bæði í eldi og framleiðslu.

Íslendingar fremstir í bleikjueldi og laxeldi á landi í heiminum
Íslendingar eru í dag fremstir í bleikjueldi og laxeldi á landi í heiminum en saga þess er löng hér á landi. Elstu rituðu heimildir um fiskeldi hér við land ná aftur til landnámsaldar þegar laxfiskar voru fluttir úr ám í tjarnir til þess að eiga mat allt árið. Hvergi á heimsvísu er stunda jafn mikið eldi Atlantshafslaxaseiða í tengslum við seiðasleppingar í ár. Bleikjueldið er það stærsta á heimsvísu og er mesta framleiðsla á lax í landeldi hér á landi. Þá hefur hlutfallslegur vöxtur sjóeldis á laxi verið mestur við Íslandsstrendur á síðustu árum. Í fyrra varð lax næst stærsta útflutningstegund sjávarafurða á eftir þorski. Íslensk tæknifyrirtæki hafa náð mjög langt á heimsvísu í tækni tengdu eldi eins og Vaka ehf, sem og vinnslu eldisafurða og nægir þar að nefna Marel, Völku og Skaginn 3X.

Tengsl við atvinnugreinina
Stofnandi fræðslumiðstöðvarinnar Lax-Inn er Sigurður Pétursson en hann hefur víðtæka menntun og reynslu úr land- og sjóeldi laxfiska (bleikju, silung og laxi) og komið að ýmsum nýsköpunarverkefnum á sviði lagarræktunar. Lax-Inn er í samstarfi við fjölmarga aðila sem munu kynna starfsemi sína í þessu nýja fræðslu- og nýsköpunarsetri. Verkefnisstjóri Lax-Inn er Katrín Unnur Ólafsdóttir, véla- og iðnaðarverkfræðingur.

Fræðslumiðstöð fiskeldis
Tilgangur fræðslumiðstöðvarinnar er að „opna“ glugga að starfsemi fiskeldis hér á landi, uppfræða og vekja áhuga almennings á sjálfbærri matvælaframleiðslu atvinnugreinarinnar. Ennfremur er markmiðið að miðla þekkingu um stöðu og framþróun í tækni eldisferilsins og gera upplýsingar um umhverfisþætti aðgengilega. Að lokum er markmiðið að gera tækifærin sem byggja á mikilli tækniþróun og nýsköpun sýnileg.

Deila: