Frá Tókýó til Vestmannaeyja

223
Deila:

Það er mikið stökk að flytja með fjöl­skyld­una frá millj­óna­borg­inni Tókýó til Vest­manna­eyja, sem telja um 4.400 íbúa. Eiga fátt sam­eig­in­legt enda var Hiroki Ig­arashi, starfsmaður Vinnslu­stöðvar­inn­ar, með kvíðahnút í maga þegar ákvörðun var tek­in um að flytja til Eyja með fjöl­skyld­una, eig­in­kon­una Ragn­heiði Reyn­is­dótt­ur og syn­ina tvo, Ein­ar ell­efu ára og Hugo níu ára. Rætt er við þau í viðtali, sem birt er á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Ragn­heiður er upp­al­in á Seltjarn­ar­nesi, á ætt­ir að rekja til Vest­manna­eyja og var ákveðin í að syn­irn­ir fengju mennt­un á Íslandi. Þau stefndu á Reykja­vík en til­vilj­un réð staðar­val­inu. Nú eru rétt rúm­ir tveir mánuðir frá því þau komu til Eyja og Hiroki sér margt já­kvætt, m.a. styttri vega­lengd­ir. Hér eru Hiroki og Ragn­heiður nokkr­ar mín­út­ur að kom­ast úr og í vinnu sem tók þau tvo tíma á dag í Tókýó. Strák­un­um lík­ar vel í skóla og komn­ir á fullt í fót­bolt­an­um.

Hiroko er frá Yama­gata, litl­um land­búnaðarbæ norðarlega í Jap­an. Mjög lít­ill bær seg­ir hann um heima­bæ­inn þar sem búa um 10.000 manns. Heitt og rakt á sumr­in og get­ur orðið mjög kalt á vet­urna. Tví­tug­ur hleypti hann heimdrag­an­um til Tókýó þar sem hann lærði verk­fræði. Ragn­heiður er kenn­ari að mennt.

„Pabbi minn ólst upp hérna. Hann heit­ir Reyn­ir Elíesers­son, en flutti upp á land eft­ir skóla­skyld­una. Afi og amma, Ein­ar Jó­hann Jóns­son og Ragn­heiður Þor­varðardótt­ir, bjuggu hérna og ég kom að heim­sækja þau, systkini pabba og systkina­börn öll sum­ur,“ seg­ir Ragn­heiður, sem kenn­ir við grunn­skól­ann.

„Í Tókýó hef ég búið í 25 ár og rúma tvo mánuði í Vest­manna­eyj­um,“ seg­ir Hiroki á góðri ensku. For­eldr­ar hans eru enn á lífi og búa í Yama­gata. Hann á tvö eldri systkini, syst­ur sem er kenn­ari og bróðir hans er bóndi. Kurt­eis og hóg­vær að hætti Jap­ana og staðráðinn í að vinna vel fyr­ir nýja vinnu­veit­end­ur. „Í Jap­an vann ég við hönn­un fyr­ir ol­íuiðnaðinn og áður en ég flutti hingað vann ég við gerð stórra tanka,“ seg­ir hann um starfs­fer­il­inn.

Kynnt­ust fyr­ir til­vilj­un í Tókýó

„Við Ragn­heiður kynnt­umst á bar í Tókýó. Ég var þar með starfs­fé­lög­um mín­um og hún ís­lensk­um vin­um. Við spjölluðum sam­an og skipt­umst á síma­núm­er­um. Hún bjó í Tókýó og kenndi ensku. Hafði ferðast mikið, kynnst Japön­um og við það kviknaði áhugi henn­ar á Jap­an, japönsku og jap­anskri menn­ingu. Og mér,“ seg­ir Hiroko og bros­ir. „Við gift­um okk­ur 2008, fyrst í Tókýó, svo á Íslandi, og eig­um tvo stráka.“

Þau voru búin að koma sér vel fyr­ir í Tókýó, áttu hús og bæði að vinna. „Já, við höfðum það gott, bæði með vinnu og strák­arn­ir okk­ar í skóla og gekk vel. Það var ekki það sem rak á eft­ir okk­ur að koma til Íslands. Ragn­heiður hafði talað um það í mörg ár að hún vildi að börn­in okk­ar hlytu mennt­un á Íslandi. Að strák­arn­ir fengju að kynn­ast lönd­um beggja for­eldr­anna, Íslandi og Jap­an. Nú var komið að því að sá eldri færi að nálg­ast fram­halds­skóla og því ekki eft­ir neinu að bíða.“

Til­vilj­un að Vest­manna­eyj­ar urðu fyr­ir val­inu

–Af hverju Vest­manna­eyj­ar? „Ragn­heiður hafði búið og starfað í Reykja­vík og planið var að flytja þangað. Hún kenndi við alþjóðleg­an skóla í Tókýó og ætlaði að sækja um kenn­ara­stöðu í Reykja­vík. Ég var á leiðinni að sækja um starf sem verk­fræðing­ur þegar vin­ur Ragn­heiðar, sem er bankamaður, benti henni á að Vinnslu­stöðin í Vest­manna­eyj­um (VSV) væri að leita að Jap­ana sem væri til­bú­inn að flytja til Eyja. Þetta var í des­em­ber í fyrra og þeir voru að leita að sölu­manni.“

Viðræður milli hans og Vinnslu­stöðvar­inn­ar byrjuðu strax í janú­ar. „Við rædd­um sam­an í hverri viku þar sem ég fékk nán­ari upp­lýs­ing­ar um starfið um leið og þeir kynnt­ust mér. Við Ragn­heiður rædd­um þetta fram og til baka og við sáum í þessu tæki­færi fyr­ir okk­ur,“ seg­ir Hiroki og ten­ing­un­um var kastað.

Þau komu til lands­ins í byrj­un ág­úst og hann byrjaði að vinna hjá Vinnslu­stöðinni 25. ág­úst. Með föt­in í tösk­um en inn­búið á leiðinni með skipi, þegar rætt var við Hiroki, og þau að leita að leigj­anda úti.

Er enn að venj­ast til­hugs­un­inni

Líf þeirra úti sner­ist um vinn­una, skól­ann og fót­bolt­ann hjá strák­un­um. „Það tók okk­ur klukku­tíma að fara í og úr vinnu. Utan vinnu og um helg­ar vor­um við mest heima nema að mik­ill tími fór í fót­bolt­ann hjá strák­un­um. Þeir eru mjög áhuga­sam­ir um fót­bolta.“

–Hvernig var til­finn­ing­in að yf­ir­gefa Tókýó, fjór­tán millj­óna borg, og stefna á Vest­manna­eyj­ar, eyju norður í höf­um þar sem íbú­ar eru rétt um 4.400?

„Ég er enn að venj­ast til­hugs­un­inni og breytt­um aðstæðum hjá fjöl­skyld­unni. Úti vöknuðum við eldsnemma á morgn­ana og við hjón­in tók­um lest í klukku­tíma í vinn­una. Ég vann til klukk­an sex og þá tók við klukku­tíma lest­ar­ferð heim. Hér ertu fimm mín­út­ur að keyra hvert sem þú ætl­ar eða tíu mín­út­ur að ganga.

Að þessu leyti er gott að búa hérna, af­slappaðra líf. Strák­arn­ir eru byrjaðir í skóla og eru ekki í nein­um vand­ræðum með að bjarga sér. Tala báðir ís­lensku og japönsku. Ég tala við þá á japönsku og mamma þeirra not­ar ís­lensk­una. Við hjón­in töl­um svo sam­an á ensku og japönsku þannig að þetta get­ur verið nokkuð flókið á heim­il­inu,“ seg­ir Hiroki og bros­ir.

Syn­irn­ir í ÍBV

–Hvernig komu Vest­manna­eyj­ar þér fyr­ir sjón­ir þegar þú komst hingað í fyrsta skipti?

„Til að vera al­veg hrein­skil­inn fannst mér allt mjög smátt. Ein­angrað. Það voru fyrstu viðbrögðin.“

–Leist þér ekki á blik­una?

„Nei. Fyrstu dag­ana fann ég fyr­ir ónot­um en það hef­ur breyst. Við leigj­um gott hús og höf­um bíl til af­nota. Það er lítið mál að skreppa til Reykja­vík­ur. Það skipt­ir líka máli að hér finn­ur maður til ör­ygg­is. Sama til­finn­ing og maður hafði í Tókýó en það var gott að koma til Vest­manna­eyja eft­ir að hafa verið í Reykja­vík.“

Hiroki seg­ir of mikið sagt að hann sé byrjaður að vinna á fullu í Vinnslu­stöðinni. Það sé margt að læra og hann ein­beiti sér að því.

„Ég verð tals­vert á ferðinni milli land­anna og von­andi á ég eft­ir að skila góðu verki. Starfs­fólkið hef­ur tekið mér mjög vel, Nú stefn­ir í góða loðnu­vertíð og Jap­an er mik­il­væg­ur markaður fyr­ir loðnu­af­urðir, sem ger­ir þetta spenn­andi,“ seg­ir Hiroki og sér fram á að fjöl­skyld­unni eigi eft­ir að líða vel í Vest­manna­eyj­um.

„Syn­irn­ir eru komn­ir á fullt í fót­bolt­an­um hjá ÍBV og eru yfir sig hrifn­ir. Úti æfðu þeir tvisvar í viku en hér eru þrjár æf­ing­ar á viku. Þeim lík­ar líka vel í skól­an­um og eru ekki nema fimm mín­út­ur að ganga í skól­ann. Auðvitað eru þetta breytt­ar aðstæður og ein­hver tími fer í að aðlag­ast þeim en ég kvíði ekki framtíðinni hér,“ sagði Hiroki að end­ingu.

Deila: