-->

Framtíð Garðars til skoðunar

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar hefur lagt til við bæjarstjórn að skipaður verði vinnuhópur til þess að vinna að hugmyndum um framtíðaráform Garðars BA, í samstarfi við landeigendur og fól menningar-og ferðamálafulltrúa að fara í þá vinnu.

Tildrög þessarar tillögu er Arnheiður Jónsdóttir og Magnús Jónsson, börn Jóns Magnússonar sem átti stálskipið  komu inn á fund ráðsins fyrir skömmu  til þess að fara yfir möguleg framtíðaráform vegna Garðars BA.

Garðar BA hefur verið einn af vinsælustu viðkomustöðum ferðmanna á sunnanverðum Vestfjörðum undanfarin ár, en skipinu var á sínum tíma siglt upp í fjöru í Skápadal í Patreksfirði. Skipið og umhverfi þess hafa orðið fyrir ágangi vegna fjölda ferðamanna. Garðar BA er í áfangastaðaáætlun Vestfjarða þar sem lagt er til að farið verði í uppbyggingu á svæðinu.

Garðar BA 64  er 179 lesta stálbátur sem smíðaður var hjá Askers Mek skipasmíðastöðinni í Noregi árið 1912 til hvalveiða og var þá með gufuvél. Þarafleiðandi var óvenju rúmgott og hátt til lofts í vélarrúminu er dieselvél var síðar sett í bátinn. Er bátnum var hleypt af stokkunum í Noregi var hann rúmlega 30 metra langur, yfir 6 metra breiður og risti tæplega 3,5 metra. Hann var tvímastraður og seglbúinn, en með gufuvél til að nota í lognviðri. Þá fékk hann nafnið Globe IV. Globe IV var gerður út á hvalveiðar í Suður-Íshafi en hann var sérstaklega styrktur til Íshafssiglinga. Til að mynda er járnið mun þykkara að framan eða 7 til 9 mm og með mun þéttriðnari böndum en tíðkaðist þá

Báturinn kom svo hingað til lands 20. janúar 1945. Næstu áratugina áttu nokkrir aðilar skipið. Loks var báturinn seldur 1974 Patreki hf á Patreksfirði og hélt enn nafninu, en var nú BA 64. Í hans umsjá fiskaði Garðar vel og var oft með aflahæstu bátum vertíðanna.

Loks var Garðar BA 64 dæmdur ónýtur, tekinn af skrá 1. desember 1981 og svo siglt á land og í sátur í Skápadal. Farvegur var grafinn inn í sandfjöruna á lágfjöru, síðan var honum siglt inn á háflóði og loks var fyllt að. Þar stendur hann enn gestum og gangandi til sýnis, lengi vel í góðu ástandi en undanfarið hefur hann látið verulega á sjá, að nokkru vegna skemmdarverka. Árið 2001 var hann málaður, lagfærður lítillega.
Mynd og texti af bb.is

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mast veitir Löxum Fiskeldi nýtt rekstrarleyfi

Matvælastofnun hefur veitt Löxum Fiskeldi ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Reyðarfirði í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælas...

thumbnail
hover

13 ára háseti með félaga sínum...

Maður vikunnar starfar í þeirri atvinnugrein sem mestur vöxtur er í um þessar mundir og hefur hleypt lífi í margar byggðir sem átt...

thumbnail
hover

Brim tekur þátt í Síminn Cyclothon

Brim tekur þátt í Síminn Cyclothon keppninni sem hófst í gær við Egilshöll. Keppnin er boðhjólakeppni þar sem átta manna lið ...