Fyrsti túrinn á togaranum á Bjarna Ben var eftirminnilegur

272
Deila:

Maður vikunnar er verkstjóri hjá Valafelli í Ólafsvík og er ánægður með tæknibyltinguna sem orðið hefur í vinnslu á flöttum saltfiski. Hann byrjaði 16 ára á tappatogara en á sjónum fannst honum leiðinlegast á reknetum.

Nafn:

Heiðar Elvan Friðriksson.

Hvaðan ertu?

Ég er fæddur og uppalinn á Skagaströnd.

Fjölskylduhagir?

Ég er ekkjumaður, faðir og afi.

Hvar starfar þú núna?

Ég er verkstjóri hjá Valafelli ehf. í Ólafsvík

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

16 ára byrjaði ég á tappatogaranum Arnar HU-1 frá Skagaströnd.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það skemmtilegasta er tæknibyltingin sem hefur orðið í saltfiskvinnslunni. Því ef hún hefði ekki orðið, væri varla hægt að manna hana, því þetta var og er erfiðasta grein fiskvinnslunnar, en þá á ég við flattan fisk.

En það erfiðasta?

Mér hefur fundist reknetaveiðar vera erfiðastar, og líka leiðinlegastar.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það skrýtnasta sem ég vil segja þér, er þegar ég fór minn fyrsta túr á togaranum Bjarna Ben. frá Reykjavík. Þegar lóðsinn var að sleppa okkur á ytrihöfninni, lagðist hann upp að okkur og tók nokkra laumufarþega í land. Stýrimaðurinn sagði mér að þetta væri nú ekkert óvenjulegt, þetta væru menn sem væru ekki sáttir við að fá ekki að fara í túrinn.
Síðan þegar búið var að skipa vaktir sat ég í borðsalnum, þegar einn skipsfélagi minn kemur og spyr mig hvort ég geti lánað sér rakspíra. Ég hélt það nú og sagði honum að fara í töskuna mína upp í klefa. Síðan eftir langan tíma þá kemur minn maður í dyrnar og kallar til mín.  Þetta var flottur spíri. Það var alveg 3 blöndur!

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Því er nú fljótt svarað hver eftirminnilegasti vinnufélaginn er. Það er vinur minn Björn Ómar Jakobsson eldri borgari.

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamálin eru gamlir bílar og ljósmyndun.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Íslenska lambakjötið, þá sérílagi svið, er í uppáhaldi hjá mér.

Hvert færir þú í draumafríið?

Í draumafríið færi ég til Portúgal.

 

 

Deila: