-->

Gæðastjóri hjá stærstu lifrarniðursuðu í heiminum

Maður vikunnar er Skagamaður og gæðastjóri hjá Akraborg og á smábát sem gerður er út á grásleppu og strandveiðar með föður sínum og föðurbróður. Honum finnst þorramatur mjög góður og langar á leik með Liverpool á Anfield.

Nafn:

Sigurjón Guðmundsson.

Haðan ertu?

Fæddur og uppalinn Skagamaður.

Fjölskylduhagir?

Er í sambúð með Karítas Evu Svavarsdóttir og eigum við 2 börn, Hafrúnu Belindu 2 ára og Orra 4 mánaða.

Hvar starfar þú núna?

Ég er gæðastjóri hjá Akraborg. Ég á einnig smábát með föður mínum og föðurbróðir sem við gerum út á grásleppu og strandveiðar.

Hvenar hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ætli að fyrsta starfið mitt hafi ekki verið að hjálpa afa að verka grásleppu og rauðmaga í bílskúrnum sem polli, einnig gekk ég í hús seldi reyktan rauðmaga fyrir gamla manninn. Annars hóf ég störf hjá fiskvinnslu HB Granda á Akranesi strax eftir útskrift úr fjölbraut 2012.

Hvað er það skemmtilegasta að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það skemmtilegasta við mitt starf er að takast á við verkefni dagsins, sem geta verið skemmtilega krefjandi og sjaldan eins. Akraborg er stærsta lifraniðursuða í heiminum og í raun stórkostleg framleiðsla. Einnig er mjög gaman að standa í smábátaútgerð.

En það erfiðasta?

Það erfiðasta sem ég hef lent í er þegar HB Grandi lokaði fiskvinnslunni á Akranesi og horfa á eftir góðum samstarfsfélögum missa vinnuna. En HB Grandi og fyrirrennarar þess höfðu starfrækt þessa fiskvinnslu í yfir 100 ár á Akranesi

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ég fór nokkra túra með nýju skipunum hjá HB Granda að gera ýmsar tilraunir sem varða kælingu og aflameðhöndlun um borð. Í einum af þessum túrum með Akurey var mikil bræla og var ég mjög sjóveikur allan tímann. Á fimmta degi þegar ég vissi ekki lengur hvað snéri upp né niður náði ég einhvern veginn að koma mér upp í brú til Eiríks skipstjóra, hann segir mér að við séum að  draga síðasta holið áður en við leggjum á stað heim, á því augabragði hvarf sjóveikin og hef ég aldrei orðið sjóveikur síðan.

Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef verið mjög heppinn með samstarfsfélaga í gegnum árin og kynntist ég m.a. sambýliskonu minni hjá HB Granda á Akranesi.
En ég verð að nefna Daníel Haraldsson en hann sá um fasteignir og viðhald HB Granda á Akranesi. Við strákanir vorum oft fengnir til að sinna viðhaldsvinnu í vinnslustoppum fyrir Danna og krafðist hann alltaf 110% vinnu frá okkur og ekkert kjaftæði. Einnig lærði maður margt í þessari vinnu sem nýtist manni í daglegu lífi.

Hver eru áhugamál þín

Mín áhugamál eru fyrst og fremst íþróttir og þá aðalega fótbolti. Einnig hef ég mjög gaman af golfi.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Þorramatur finnst mér ótrúlega góður, en það er ekki mjög vinsælt heima, þegar ég versla mér nokkrar fötur af súrmat á þorranum.

Hvert færir þú í draumafríið?

Draumafríð væri að fara með fjölskylduna til Danmerkur í heimsókn til systir minnar sem er búsett þar. Það væri líka gaman að komast á Anfield og horfa á Liverpool.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Virkt ábendingarkerfi  hjá Faxaflóahöfnum

Virkt ábendingarkerfi hefur verið hjá Faxaflóahöfnum allt frá árinu 2016. Í gegnum kerfið er unnið að umbótaverkefnum sem leiða...

thumbnail
hover

Ertu öruggur um borð?

Vinnslustöðin, FISK Seafood og VÍS hafa hrundið af stokkum átaksverkefni sem ætlað er að beina kastljósum að öryggismálum á ski...

thumbnail
hover

Síldin sækir til vesturs 

Mun meira var að sjá af norsk-íslenskri síld og kolmunna í nýafstöðnum rannsóknarleiðangri færeyska rannsóknaskipsins Jákups Sv...