Góðmeti úr Grindavík

183
Deila:

Saltfiskur er góður matur og hann má elda á nánast óteljandi vegu. Við Íslendingar höfum fyrir allnokkru tekið upp matreiðslu á saltfiski að hætti Suður-Evrópubúa og er það vel. Þessi einfaldi og góði réttur er með slíku ívafi en uppskriftin engu að síður frá stærstu þorskveiðihöfn landsins, Grindavík. Þar er unninn saltfiskur í stórum stíl, flattur upp á gamla mátann, léttsaltaður og á fleiri vegu og fer hann að segja má allur á markaði í Suður-Evrópu, frá Grikklandi í austri til Portúgals í vestri. Þannig tengir þessi uppskrift upprunalandið Ísland við markaðina í suðri. Þessi réttur er kjörinn veislumatur og hentar vel í rómantískan kvöldverð fyrir ástfangið fólk á öllum aldri.

Innihald:

800g léttsaltaðir þorskhnakkar
½ gul paprika
½ rauð paprika
½ appelsínugul paprika
1 laukur
1 krukka mild salsasósa (200-300g)
smjörlíki og olía til steikingar
8 góðar kartöflur

Aðferð:

Sjóðið kartöflurnar, skerið paprikur og lauk í þunnar sneiðar og mýkið á pönnu. Skerið saltfiskinn í hæfilega bita, þerrið þá og veltið upp úr hveiti. Steikið þá við nokkuð háan hita í blöndu af smjörlíki og olíu, fyrst á holdhliðinni uns þeir eru orðnir gullnir og síðan með roðið niður. Steikingartími fer eftir þykkt bitanna. Þegar kartöflurnar eru soðnar eru þær skornar í bita, 2-4 eftir stærð, og steiktar í smjörlíki og olíu uns þær verða gullnar að utan. Stráið grófu salti yfir þær á meðan þær eru að steikjast.

Hitið salsasósuna og dreifið henni á fjóra diska, leggið fiskbitana ofan á hana og síðan lauk- og paprikublönduna. Kartöflurnar koma svo til hliðar á diskinn. Spánverjar drekka rauðvín með þessum góða mat og við mælum líka með því í hæfilegu magni fyrir þá sem það kunna að meta.

Deila: