Góður þorskafli í kantinum fyrir vestan

Ísfisktogarinn Helga María AK kom til hafnar í Reykjavík í vikubyrjun með um 185 tonna afla. Þetta er afrakstur veiðiferðar á Vestfjarðamið en góður afli fékkst djúpt í kantinum sem liggur frá Víkurál norður á Halann.
,,Uppistaða aflans var þorskur, ufsi og karfi. Þorskinn fengum við í kantinum á um 180 til 200 faðma dýpi og svo fengum við ufsa og karfa með. Karfaveiðin gat verið góð yfir daginn en um leið og það fór að skyggja þá virtist karfinn dreifa sér og hverfa úr veiðinni,” segir Heimir Guðbjörnsson skipstjóri í samtali á heimasíðu Brims.
Að sögn Heimis var þorskurinn fínn eða um þrjú kíló að jafnaði. Ufsinn var heldur stærri eða þrjú til fjögur kíló.
,,Við urðum ekki varir við loðnutorfur en það var töluvert af loðnu í fiskinum og þá aðallega í ufsanum. Veður var gott allan tímann utan hvað það var leiðindaveður í síðasta holinu á heimleiðinni en það tókum við í Víkurálnum,” sagði Heimir Guðbjörnsson en hann segir mikið vera af karfa á þessu veiðisvæði sem og í kantinum.
Lítið hefur verið að gerast á Vestfjarðamiðum undanfarnar vikur og hefur togaraflotinn þess í stað sótt austur á Austfjarðamið. Breytinga kann nú að vera að vænta en skipum hefur farið fjölgandi á Vestfjarðamiðum síðustu daga.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mikil aukning í fiskeldi fyrirsjáanleg

Ríflega fjörutíu prósenta aukning verður í fiskeldi hér á landi, frá því sem nú er, verði allar umsóknir um ný rekstrarleyfi ...

thumbnail
hover

Málefni hafsins til umræðu

Loftslagsmál, grænar orkulausnir, málefni hafsins og heilbrigðismál voru á meðal fundarefna á þriggja daga haustfundi embættismann...

thumbnail
hover

Lokaferð Halldórs

Halldór Nellett er nú í lokaferð sinni sem skipherra á varðskipinu Þór en skipið lét úr höfn í Reykjavík fyrir helgi. Þegar v...